Samfélagssáttmáli um þessi atriði gildi meðan veiran er á meðal okkar

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna. / Lögreglan.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, lagði til á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að þjóðin geri með sér nokkurs konar samfélagssáttmála í næstu skrefum baráttunnar gegn kórónuveirunni, nú þegar styttist í afnám ýmissa takmarkana sem í gildi hafa verið.

Víðir benti á að 4. maí nálgist hratt. Núgildandi takmarkanir hafi verið íþyngjandi fyrir marga og mikilvægt að huga að framhaldinu og hvað við gætum gert til að tryggja að ekki verði bakslag.

Í slíkum samfélagssáttmála yrði samkomulag um að stunda handþvott, nota handspritt, þrífa sameiginlega snertifleti, virða tveggja metra mannhelgi, vera heima ef fólk finnur fyrir veikindum, veita áfram mikilvæga heilbrigðisþjónustu og taka sýni og beita sóttkví ef með þurfi. Einnig þurfi að miðla upplýsingum, fylgjast með traustum ritstýrðum fréttamiðlum og vera skilningsrík gagnvart þeim sem misstíga sig og leiðbeina á kurteisan hátt um að vanda sig betur.

Umfram allt að vera góð hvert við annað og passa okkur að skilja engan útundan. Sameiginlegt verkefni sé að koma lífinu aftur í rétt horf.

Víðir sagði einnig skipta miklu máli hvernig önnur lönd aflétta takmörkunum. Þetta væri sameiginlegt verkefni alls mannkyns.