Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi eftir útlendingaumræðu

Bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bæta lítillega við sig fylgi ef kosið yrði nú, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Maskína hefur gert. Fylgisaukningin kemur í kjölfarið á talsverðri þjóðfélagsumræðu undanfarið um útlendingalög og hælisleitendur og yfirlýsingar formanna beggja flokka um þau mál opinberlega.

Ef gengið yrði til kosninga nú, fengi Samfylkingin 27,2% og bætir við sig hálfu öðru prósentustigi frá síðustu könnun. Má þannig gera því skóna, að útspil Kristrúnar Frostadóttur í útlendingamálum og mikil umræða um það, hafi virkað vel á kjósendur, enda þótt það hafi vakið nokkrar deilur innan flokks hennar.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir prósentustigi við sig, fer úr 17% í 18%. Sannarlega er það sögulega lágt í öllum skilningi, en í Valhöll munu menn draga þá ályktun að fylgistap flokksins hafi verið stöðvað og þróuninni snúið við.

Á móti missir Miðflokkurinn eitt prósentustig, fer úr 12% í 11%, en athygli vekur að bæði Viðreisn og Framsókn tapa nálægt tveimur prósentustigum milli mánaða. Viðreisn mælist nú í um 9% og Framsókn 8%.

Sósíalistar nærri því að komast að

Píratar fara aðeins upp og mælast með 9%, en VG og Flokkur fólksins fengju um sex prósent, hvor flokkur. Sósíalistaflokkurinn er nálægt því að koma manni eða mönnum að, fengi 4% skv. könnuninni.

Innan við þriðjungur þjóðarinnar styður ríkisstjórnina, samkvæmt könnun Maskínu.

Könnun fyrirtækisins fór fram dagana 7. til 27. febrúar. 1.706 svarendur tóku afstöðu til flokks. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá á netinu. Svarendur voru alls staðar að á landinu og á aldrinum 18 ára og eldri, skv. upplýsingum fyrirtækisins.