Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður, Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um breytingu á embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins. Embættinu verði veitt ákæruvald og heimild til saksóknar í þeim málum sem það rannsakar.
Frá þessu segir í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar.
Flutningsmenn telja að verði tvíverknaður við rannsóknir sakamála aflagður muni það koma í veg fyrir óþarfa fyrirhöfn og kostnað fyrir hið opinbera og óþarfa íþyngingu fyrir sakborninga. Líta megi til reynslu af rannsókn stórra flókinna mála sem nýlega hafa verið og eru á borðum embættanna.
Réttarríkið kostnaðarsamt, tímafrekt og til ama
Lagt er til að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem vinni drög að lagafrumvarpi sem kveði á um breytingu á embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins í þá veru. Tvíverknaður í meðferð á skatta- og efnahagsbrotum er tímafrekur, kostnaðarsamur, til ama fyrir suma sakborninga og getur orðið til þess að mál fyrnist eins og dæmin sanna. Fyrirkomulagið sem er við lýði hér á landi er seinvirkt og kostnaðarsamt og hvorki hinu opinbera né meintum sakborningum í hag, að því er segir í tilkynningunni.
Telja hættu á milduðum dómum og sýknu
Með löngum um málsmeðferðartíma vex auk þess hættan á að réttarspjöll verði sem leiði til mildari dóma en ella eða jafnvel sýknu eins og dæmi eru um. Ef skattrannsóknarstjóri fengi ákæruvald gengju málin greiðlegar fyrir sig. Þetta hefur verið lagt til í mörgum greiningum, skýrslum og þingmálum síðasta aldarfjórðung en ekkert hefur breyst í þessum efnum. Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu frá 2016 lagði til að rannsóknarmál verði eingöngu til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra sem fái ákæruvald. Peningaþvætti tengist oft skattsvikum, segir jafnframt í tilkynningunni.
Að lokum segir að í skýrslu fjármálaaðgerðahópsins (FATF) og áhættumati ríkislögreglustjóra frá því fyrr á árinu kemur skýrt fram að skattalagabrot séu ein helstu frumbrot peningaþvættis en rannsókn peningaþvættisbrota er samkvæmt lögum á hendi héraðssaksóknara. Vegna þess hve mjög peningaþvættisbrot tvinnast saman við frumbrot liggur hins vegar vel við að rannsaka peningaþvætti vegna skattsvika samhliða þeim skattalagabrotum sem um ræðir. Hefur þeirri skipan einmitt verið komið á í Svíþjóð nú í ár.