Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag nýjasta útspil flokksins sem ber yfirskriftina Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum á fréttamannafundi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Útspilið er afrakstur af metnaðarfullu málefnastarfi síðustu 6 mánuði þar sem forystufólk flokksins heimsótti 180 fyrirtæki og efndi til 26 opinna funda um atvinnu og samgöngur víðs vegar um landið, að því er segir í tilkynningu frá flokknum.
„Þetta eru kröfur frá þjóðinni sem við höfum meðtekið og gerum að okkar: Þrjár grundvallarkröfur í atvinnu- og samgöngumálum sem Samfylkingin gerir til næstu ríkisstjórnar – sem við bjóðum okkur fram til að leiða,“ segir Kristrún í tilkynningu til fjölmiðla.
„Þannig felur Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum í sér eins konar verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn – þrjár grundvallarkröfur í mikilvægum málaflokkum og aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki á tveimur kjörtímabilum.“
Áður hafði Samfylkingin kynnt útspilið Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, þar sem sett voru fram fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétt átt. Næst á dagskrá eru húsnæðis- og kjaramál sem verða í forgangi hjá flokknum næstu 6 mánuðina.
Grundvallarkröfurnar þrjár eru eftirfarandi:
1. Krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum
- 10 ára markmið um að auka ársframleiðslu á raforku um 5 TWh
- Fjárfestingar í samgöngum fari aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030 (sem er um 1% af vergri landsframleiðslu)
2. Krafa um skynsemi í auðlindastefnu
- Almenn auðlindagjöld frá fyrsta kjörtímabili í ríkisstjórn sem renni til nærsamfélags og þjóðar
3. Krafa um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland
- Atvinnustefna fyrir Ísland sem stendur undir íslenskum kjörum
Í hverjum kafla fyrir sig eru síðan settar fram aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki. Hér fyrir neðan má lesa stutta samantekt á ýmsum atriðum úr útspilinu sem kunna að vekja athygli.
Útspilið í heild má lesa á vef Samfylkingarinnar eða á pdf-formi hér.