Samfylkingin tuttugu ára: „Bandalag alls konar fólks“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Tuttugu ár eru nú síðan Samfylkingin varð til á fjölmennum fundi í Borgarleikhúsinu og Össur Skarp­héðins­son kjör­inn fyrsti formaður flokksins. Kvennalistinn, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið runnu þá í eitt ásamt Þjóðvaka.

Afmælisávarp formanns

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands, fagnar 20 árum í dag en flokkurinn var stofnaður þann 5. maí árið 2000 í Borgarleikhúsinu. Samfylkingin bauð fram í fyrsta skipti í Alþingiskosningum 1999 sem kosningabandalag. Stofnfundur Samfylkingarinnar var hins vegar haldinn 5. maí 2000 og varð hún þá að formlegum flokki. Þótt flokkurinn fagni nú tuttugu árum á hann rætur mikið lengra aftur, allan fullveldistímann, jafnvel lengur en það. Og hann byggir á jafnaðarstefnunni, hugmyndafræði sem hefur legið til grundvallar mörgum af farsælustu samfélögum veraldar.Logi flutti ávarp í tilefni 20 ára afmælis Samfylkingarinnar.

Posted by Samfylkingin on Þriðjudagur, 5. maí 2020

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarnnar, skrifar á fésbók í tilefni þessara tímamóta, að flokkurinn hafi verið stofnaður sem vettvangur fyrir íslenska jafnaðarmenn í þeirri von að hér á landi gæti slíkur flokkur orðið ámóta kjölfesta á vinstri kantinum og tíðkast í flestum þeim Evrópulöndum sem lengst hafa náð í að móta gott samfélag þar sem velferð er sterk og efnhagsmálum stjórnað af skynsemi.

„Það tókst að skapa flokkinn úr fjórum flokkum sem áður höfðu bitist um sama kjósendahópinn. Það var vel af sér vikið. Þetta hefur verið stormasamt, mikil átök enda ógurlegir hagsmunir hjá voldugum öflum sem sjá ógn í þessum flokki og hugsjónum hans; það hafa verið sigrar og ósigrar, gæfuspor og mistök – hvernig má annað vera – en nú er svo komið að fólk gerir sér almennt grein fyrir því að sterk Samfylking er forsenda þess að jafnaðarstefnan sé höfð að leiðarljósi við landstjórnina og úrlausn allra mála,“ segir hann.

„Samfylkingin er samfylking. Þetta er bandalag alls konar fólks og er með sterkar rætur í verkalýðshreyfingu, jafnréttisbaráttu, mannréttindasamtökum og annarri hugsjónastarfsemi um meira réttlæti og heilbrigðara atvinnulíf þar sem virðing er borin fyrir réttindum fólks – og verðmætum náttúru. Í flokknum eru eldheitir femínistar, varfærnir eðalkratar, friðelskandi herstöðvaandstæðingar, hagsýnir Evrópusinnar, óbilandi stjórnarskrárbaráttufólk, framsýnir náttúruverndarar, lattelepjandi úrbanistar … og svo við öll hin sem hafa einhverja blöndu af þessum karakterum inni í sér – og öll sameinumst við í þeirri sannfæringu að jafnaðarstefnan sé eina vitið,“ bætir hann við.

Viljinn óskar Samfylkingunni og flokksfólki til hamingju með daginn!