Þriðji orkupakki Evrópusambandsins mun koma til umræðu inn í þinginu í vetur og verður þá málið skoðað frá öllum hliðum. Þingmenn Samfylkingarinnar munu nálgast málið af opnum huga en eins og málið lítur út í dag þá er ekki að sjá að upptaka þriðja orkupakkans muni valda neinum vandkvæðum á Íslandi og því ekki ástæða til að setja EES samstarfið í uppnám.
Þetta segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Svo er að sjá að bæði Samfylkingin og Viðreisn styðji innleiðingu orkupakkans í íslenska löggjöf og einstakir þingmenn Pírata hafa einnig furðað sig á vaxandi andstöðu við málið.
Miðflokkurinn hefur lýst því yfir að hann sé alfarið á móti innleiðingunni og hefur lýst eftir bandamönnum við að verja fullveldi landsins. Í grasrót Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er vaxandi andstaða við málið og hafa kjördæmissambönd Framsóknarflokksins ályktað gegn orkupakkanum að undanförnu.
Albertína segir að andstaðan nú hefði verið skiljanlegri þegar fyrsti og annar orkupakkinn voru til umfjöllunar seint á síðustu öld og snemma á þessari, en í þeim hafi umfangsmeiri breytingar gerðar á umhverfi orkumála en munu verða með þeim þriðja.
Ótrúlegum rangfærslum og beinum blekkingum beitt
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fv. framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að málið sé mjög langt komið og gefur ekki mikið fyrir gagnrýnina.
„Nú, á lokametrum þeirrar innleiðingar er skyndilega hlaupið upp til handa og fóta og reynt að gera málið allt hið tortryggilegasta. Ótrúlegum rangfærslum og hreinum og beinum blekkingum hefur verið beitt í þeim málflutningi.
Sömu flokkar stóðu að innleiðingu á sameiginlegu evrópsku fjármálaeftirliti og sameiginlegri evrópskri persónuverndarlöggjöf utan við tveggja stoða kerfi EES samningsins. Innleiðing þessara tveggja regluverka inn í EES rétt ganga mun lengra í valdaframsali en þriðji orkupakkinn.
Dæmin sýna vissulega að staðreyndir skipti ekki endilega máli ef lygin er endurtekin nægilega oft í pólitík. En það er enginn sómi af slíkri pólitík og hún er ekki til þess fallin að efla traust á stjórnmálamönnum og lýðræði. Nokkuð sem ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni í ljósi þeirrar kreppu sem lýðræðið er í víða í heiminum í dag,“ segir Þorsteinn.