Samkomubann framlengt út apríl: Mikið álag á gjörgæslur veldur áhyggjum

Ljósmynd: Lögreglan.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mikilvægt sé að slaka ekki á þeim takmörkunum sem settar hafa verið á samkomuhaldi í landinu, svo unnt sé að halda útbreiðslu Kórónuveirunnar Covid-19 í skefjum. Mikið var skimað fyrir veirunni í gær og greindust 85 ný tilfelli síðasta sólarhring. Það þýðir að alls hafa nú 1.220 verið greindir með smit hér á landi.

Þetta kom fram í máli sóttvarnalæknir á daglegum upplýsingafundi Almannavarna nú áðan. Hann benti á að tæplega 20 þúsund sýni hafi verið tekin, sem sé með því mesta sem þekkist í heiminum.

Ellefu sjúklingar liggja nú í gjörgæslu vegna Covid-19 sýkingar á Landspítalanum og hefur aukinheldur einn verið lagður inn á sjúkrahúsið á Akureyri. Ellefu er nú alls í öndunarvél.

Þórólfur segir að mikið álag á gjörgæslur veki áhyggjur, en faraldurinn sé almennt áfram í línulegum vexti. Tiltölulega fá smit hafi greinst í gær, en nánast tvöfalt fleiri í dag.

Vegna álagsins á gjörgæslur, sem fylgi svartsýnustu spám, verði að halda aðgerðum áfram og framlengja þeim. Gert hafi verið ráð fyrir samkomubanni til 13. apríl nk., en nú hafi hann ritað heilbrigðisráðherra bréf og lagt til að það verði framlengt út apríl.

Sagði sóttvarnalæknir að nú reyni á samstöðu þjóðarinnar og úthald á erfiðum tímum. Við þurfum að standa saman sem þjóð til að hindra frekari útbreiðslu. Einkum verði að gæta sérstaklega að viðkvæmum hópum svo alvarlegum veikindum haldi ekki áfram að fjölga, eins og verið hefur.

Í aðdraganda páska benti Þórólfur á að veiran virði ekki frídaga og hún geti smitast hratt milli fólks ef fyllsta aðgát sé ekki viðhöfð.