Af ummælum ráðamanna að dæma er aðeins tímaspursmál hvenær gripið verður til lagaheimilda um samkomubann í viðleitni til að hefta eða tefja útbreiðslu Kórónaveirunnar hér á landi. Í atvinnulífinu telja margir að slíkar ráðstafanir, sem jafnvel gætu staðið yfir vikum saman, geti riðið mörgum fyrirtækjum að fullu.
Í samkomubanni samkvæmt 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 segir að fjöldasamkomur séu óheimilar svo sem fundarhöld, skólastarf, skemmtanir á borð við dansleiki, leiksýningar og kirkjuathafnir, t.d. guðsþjónustur. Samkomubann er sett samkvæmt nánari fyrirmælum.
Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á sóttvörnum og mælir fyrir um sóttvarnaráðstafanir undir yfirstjórn ráðherra. Samkvæmt 12. grein sóttvarnalaga getur ráðherra, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, fyrirskipað skimun á landamærastöðvum, úrskurðað fólk í sóttkví/afkvíun þar á meðal heimasóttkví/ heimaafkvíun, fyrirskipað samkomubann, afkvíun landsins í heild og innanlands í sóttvarnasvæði. Sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrirfram en gera skal ráðherra jafnskjótt kunnar sínar ráðstafanir. Umdæmis- og svæðislæknar sóttvarna og sóttvarna- læknir skulu hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef þarf.
Sóttvarnaráðstafanir geta verið þess eðlis að ólíklegt sé að til þeirra verði gripið án samráðs ráðherra í ríkisstjórn vegna þess að þær varða allt svið samfélagsins.
Þær eru:
- Fyrirmæli um samkomubann, lokun skóla og annarra samkomustaða.
- Fækkun landamærastöðva þar sem sett verður upp sóttvarnaskimun.
- Afkvíun alls landsins með lokun landamæra.
- Afkvíun landshluta með lokun á milli sóttvarnaumdæma.
- Ákvörðun um að aflétta ofangreindum ráðstöfunum.
Takmarkanir á ferðafrelsi
Í viðbragðsáætlun Almannavarna sem nú hefur verið virkjuð, segir ennfremur að ráðherra sé heimilt, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka ferðafrelsi manna með því að grípa til afkvíunar byggðarlaga og landsins alls og einangrunar sýktra manna (sbr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997).
Sóttvarnalæknir gefur fyrirmæli um nánari tilhögun takmarkana á ferðafrelsi. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sér um framkvæmd þessara ráðstafana í samvinnu við dóms- málaráðuneyti og lögreglustjóra.
Mjög hörð lending
Þótt öllum sé væntanlega ljós alvara málsins, er því ekki að leyna að beygur er í mörgum atvinnurekendum yfir því hvað næstu dagar og vikur bera í skauti sér.
Bjarni Ákason fjárfestir er í sóttkví þessa dagana, enda nýkominn frá skíðum á Ítalíu. Hann bendir á í færslu á fésbókinni að framundan sé „mjög hörð lending“ og þeir sem ekki ráði við töluverðan taprekstur næstu 2-3 mánuðina séu í vondum málum.
Sigurður Már Jónsson viðskiptablaðamaður tekur undir þetta í pistli í gær. Hann segir flest benda til þess að fjölmörg fyrirtæki lendi í miklum hremmingum enda ljóst að mikið af þeim nýju félögum sem starfa í ferðaþjónustunni hafi ekki náð að byggja upp eigið fé til að standa af sér skakkaföll.
„Jafnvel stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins geta lent í alvarlegum erfiðleikum. Vissulega er ríkissjóður ágætlega í stakk búinn til að takast á við þessa erfiðleika en það er ákveðnum takmörkunum háð hvað hægt er að gerast með ríkisfjármálum þó allir séu orðnir Keynistar nú til dags. Jú, innviðafjárfestingar eru nauðsynlegar og geta verið heppilegar til að örva hagkerfið en sem fyrr verður að treysta á undirstöðuatvinnugreinarnar, þær sem útvega okkur þann gjaldeyri sem nauðsynlegur er til að halda uppi lífskjörum hér á Íslandi,“ segir hann.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, viðrar einnig miklar áhyggjur sínar, í færslu hér að neðan.