Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið samkomubann hér á landi frá og með næstkomandi mánudegi, að tillögu sóttvarnalæknis. Auglýsing um nánari útfærslu bannsins verður birt í Stjórnartíðindum og kynnt fjölmiðlum síðar í dag.
Heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafði boðað til blaðamannafundar kl. 11 í Ráðherrabústaðnum, en óvænt mættu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra einnig á fundinn og tilkynnti forsætisráðherra að engin fordæmi væru fyrir slíkri ákvörðun í lýðveldissögu Íslands.
„Okkar leiðarljós hefur hingað til verið að fylgja ráðum okkar besta heilbrigðisstarfsfólks,“ sagði Katrín.
Heilbrigðisráðherra sagði að nánari skilgreining samkomubanns verði kynnt nú innan skamms, en hugsunin er sú að takmarka skuli samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars, aðfaranótt mánudags. Um er að ræða samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman.
Gerð verður sú krafa að þar sem fólk komi saman verði minnst tveir metrar milli fólks.
Skólar á framhaldsskólastigi og háskólar muni einnig loka. Ýmsar takmarkanir verða gerðar á starfi leikskóla og grunnskóla í landinu.
Takmarkanir verða á aðgengi almennings að stórum verslunum, líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og fleira sem verður skilgreint nánar í aðdraganda bannsins.