Samkomubann sett á Íslandi í fyrsta sinn á lýðveldistímanum

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið samkomubann hér á landi frá og með næstkomandi mánudegi, að tillögu sóttvarnalæknis. Auglýsing um nánari útfærslu bannsins verður birt í Stjórnartíðindum og kynnt fjölmiðlum síðar í dag.

Heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hafði boðað til blaðamannafundar kl. 11 í Ráðherrabústaðnum, en óvænt mættu Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra einnig á fundinn og tilkynnti forsætisráðherra að engin fordæmi væru fyrir slíkri ákvörðun í lýðveld­is­sögu Íslands.

„Okk­ar leiðarljós hef­ur hingað til verið að fylgja ráðum okk­ar besta heil­brigðis­starfs­fólks,“ sagði Katrín.

Heilbrigðisráðherra sagði að nánari skilgreining samkomubanns verði kynnt nú innan skamms, en hugsunin er sú að tak­marka skuli sam­kom­ur í fjór­ar vik­ur frá miðnætti 15. mars, aðfaranótt mánu­dags. Um er að ræða sam­kom­ur þar sem fleiri en 100 manns koma sam­an.

Gerð verður sú krafa að þar sem fólk komi saman verði minnst tveir metrar milli fólks.

Skólar á framhaldsskólastigi og háskólar muni einnig loka. Ýmsar takmarkanir verða gerðar á starfi leikskóla og grunnskóla í landinu.

Takmarkanir verða á aðgengi almennings að stórum verslunum, líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og fleira sem verður skilgreint nánar í aðdraganda bannsins.