Samskiptavandi í Seðlabankanum ástæður umsóknar Rannveigar

Athygli vakti í gær, að Rannveig S. Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri og hagfræðingur er meðal umsækjenda um stöðu ríkissáttasemjara.

Félagsmálaráðuneytið auglýsti þann 5. desember síðastliðinn embætti ríkissáttasemjara laust til umsóknar. Umsóknarfrestur var til og með 20. desember síðastliðinn. Bryndís Hlöðversdóttir er hætt störfum sem sáttasemjari og orðin ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Helga Jónsdóttir gegnir starfinu tímabundið, þar til nýr sáttasemjari hefur verið skipaður.

Í auglýsingunni sagði að ríkissáttasemjari starfi á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Hann annist sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Skal þess því gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn fremur er lögð áhersla á forystuhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri.

Eftirtaldar umsóknir bárust um embættið:

Aðalsteinn Leifsson framkvæmdastjóri
Gylfi Arnbjörnsson hagfræðingur
Herdís Hallmarsdóttir lögmaður
Lara De Stefano þjónn
Ólafur Þorsteinn Kjartansson ráðgjafi
Rannveig S. Sigurðardóttir hagfræðingur

Umsóknirnar verða nú metnar af sérstakri ráðgefandi hæfnisnefnd sem félags- og barnamálaráðherra mun skipa.  Eftirtaldir hafa verið tilnefndir til setu í nefndinni: Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Auk þess mun ráðherra skipa Gissur Pétursson ráðuneytisstjóra formann nefndarinnar. Bjarnheiður Gautadóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, mun starfa með nefndinni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun skipa í embættið til fimm ára þegar hann hefur fengið tillögur nefndarinnar í hendur.

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Almennt er talið að Gylfi Arnbjörnsson standi sterkast að vígi meðal umsækjenda. Hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri og síðar forseti ASÍ, hefur að auki mikla starfsreynslu úr fjármálageiranum og ætti því að þekkja vinnumarkaðinn eins og lófann á sér. Líklegt er og talið að hann eigi traust bæði launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda, sem er ekki lítið atriði.

En umsókn Rannveigar vekur samt mesta athygli. Almennt er talið að æðstu stjórnendur Seðlabankans vilji enda starfsferil sinn þar, en sækja ekki á önnur mið. Sérstaklega ekki aðeins skömmu eftir skipun í embætti.

En það er altalað í Svörtuloftum við Kalkofnsveg, að samstarfs- og samskiptaörðugleikar Rannveigar og Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra séu miklir og fari vaxandi. Þau eigi hvorki skap saman, né auðvelt með samvinnu eða samskipti.

Þess vegna leitar Rannveig nú á önnur mið. Hvort hún hreppir hnossið er svo önnur saga, en hitt er ljóst að samskiptavandi æðstu manna í Seðlabankanum er nú lýðum ljós.