Sannfærðist um að hann hefði í reynd verið sigurvegari prófkjörsins

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hættur við að hætta í pólitík. Hann ætlar að taka þiggja sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ef það stendur þá enn til boða.

Þetta tilkynnir hann með svofelldri yfirlýsingu á fésbókinni í dag:

„Eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík taldi ég rétt að kveðja stjórnmálin. Niðurstaðan var vonbrigði fyrir mig enda talsvert frá markmiðum mínum. Þessi ákvörðun féll í grýttan jarðveg hjá mörgum flokksmönnum og var lagt nokkuð hart að mér að endurskoða þessa ákvörðun. Ég féllst á að íhuga það.

Mér var bent á af sérfræðingum í eðli prófkjöra og Kremlarlógíu flokksins að niðurstaða prófkjörsins hafi verið í raun verið góð fyrir mig. Að lokum náðist að sannfæra mig um að ég hafi verið sigurvegari prófkjörsins, eiginlega stórsigur. Eftir að hafa legið undir feldi á þriðju viku, kófsveittur og illa lyktandi hef ég ákveðið að þiggja sæti á listanum, ef það stendur þá enn til boða.

Ég er sannfærður um að stefna flokksins sé góð fyrir land og þjóð. Ég tel að ég geti orðið að liði í komandi kosningabaráttu og er sannfærður um að sterkur og breiður Sjálfstæðisflokkur er mikilvægur svo að okkur vegni vel, meira nú en oft áður.

Í Sjálfstæðisflokknum eru margar vistarverur og við erum ólík. En við eigum sameiginlegar hugsjónir sem birtast í grunnstefnu flokksins. Við þurfum hins vegar að berjast fyrir stefnunni og hugsjónunum. Þurfum kjark og þor í stað þess að berast með straumnum, sem á það til að fara í misgóðan farveg, öllum til tjóns.“