Seðlabankastjóra og nánustu samstarfsmönnum ekki sætt

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagði við upphaf þingfundar í dag, að með ólíkindum sé hvernig seðlabankastjóri og Seðlabankinn hafa farið fram í Samherjamálinu.

Eftir makalausa yfirferð Umboðsmanns Alþingis um málið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun, sjái hann ekki annan kost vænlegri fyrir þá sem þarna eiga hlut að máli innan Seðlabankans en að þeir láti þegar af störfum, þ.e. seðlabankastjóri og hans nánustu samstarfsmenn.

„Þeim er ekki sætt eftir þá framgöngu sem þeir hafa sýnt hér, hafa ekki hlustað á nokkurn mann og ekki orðið við nokkrum ábendingum eða tilmælum,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn vísað til þess að Umboðsmaður Alþingis hafi lýst því yfir að sér væri misboðið fyrir hönd þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem ættu í hlut.

„Það virðist svo sem Seðlabankinn og seðlabankastjóri hafi hvorki sinnt ábendingum né athugasemdum, ekki tekið mark á afstöðu ríkissaksóknara heldur haldið áfram vegferð sinni,“ sagði þingmaðurinn og benti á að það gerðist ekki oft að Umboðsmaður tæki jafn stórt upp í sig og hann verði gert á nefndarfundinum í morgun.

„Hann gagnrýndi einnig, eins og hann hefur áður gert, ummæli sem seðlabankastjóri hefur látið hafa eftir sér um mál Samherja, þar sem látið er að því liggja að þrátt fyrir að málið hafi verið látið niður falla sé ekki þar með sagt að rannsóknin hafi verið tilhæfulaus,“ bætti hann við.