Seðlabankinn afturkallar sektir og endurgreiðir meirihluta fjárins

Seðlabanki Íslands mun leggja sveiflujöfnunarauka á bankakerfið á laugardaginn.

Seðlabanki Íslands hefur látið endurgreiða meira en þrjá fjórðu, eða 77,2%, samanlagðrar sektarfjárhæðar vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál, með vöxtum. Þetta kemur fram í svarbréfi Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Björns Jóns Bragasonar, sagnfræðings, til bankans vegna sagnfræðirannsóknar hans.

Björn Jón hefur rannsakað og skrifað um þessi mál, m.a. bókina Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits?, sem Almenna bókafélagið gaf út árið 2016.

Bankinn tilkynnti þann 25. febrúar sl. um endurskoðun sektarákvarðana vegna reglna um gjaldeyrismál, og að þess yrði farið á leit við Fjársýslu ríkisins að sektir og sættir vegna þeirra yrðu endurgreiddar.

Samanlagt frá því að Seðlabanki Íslands fékk rannsóknarheimildir með lögum nr. 78/2010 um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, hefur bankinn lagt á 43 stjórnvaldssektir, samtals að fjárhæð um 204,3 milljón króna, vegna brota á gjaldeyrisreglum og fjármagnshöftum.

Sektir ýmist afturkallaðar, ógiltar eða felldar niður fyrir dómi

Alls hefur bankinn afturkallað 19 sektarákvarðanir á grundvelli fjármagnshaftanna, og Fjársýsla ríkisins hefur þegar endurgreitt um 43,5 milljónir króna með vöxtum, vegna brota á þeim reglum.

Dómstólar hafa ógilt eina sektarákvörðun bankans að fjárhæð 15 milljónir og fellt niður tvær aðrar, annarsvegar sekt að fjárhæð 75 milljónir og hinsvegar að fjárhæð 24,2 milljónir. Útaf standa þá álagðar sektir að fjárhæð tæplega 46,6 milljóna króna, sem ýmist lauk með sátt eða einhliða sektarákvörðun.

Engin fleiri mál þessarar gerðar eru enn til meðferðar í Seðlabankanum, segir í svarbréfinu, en að bankanum hafi verið stefnt vegna fjögurra málanna, til greiðslu skaðabóta, vegna stjórnsýslumeðferðar hans á álögðum sektum, og nemur samanlögð stefnufjárhæðin rúmlega 568,1 milljón króna. Þau mál bíða enn meðferðar dómstóla.