Seðlabankinn fær falleinkunn frá Umboðsmanni Alþingis

Már Guðmundsson fv. seðlabankastjóri.

Umboðsmaður Alþingis lauk áliti í vikunni í tengslum við kvörtun Samherja er laut að álagningu stjórnvaldssekta Seðlabanka Íslands vegna brota á reglum um gjaldeyrismál. Hörð gagnrýni kemur fram á stjórnsýslu Seðlabankans í áliti umboðsmanns og þar kemur beinlínis fram, að svör Seðlabankans í málinu hafi ekki verið í samræmi við lög.

Árið 2018 óskaði Samherji eftir því að bankinn afturkallaði ákvörðun sína um álagningu stjórnvaldssektar frá árinu 2016, sem bankinn féllst ekki áVísaði hann í þeim efnum einkum til þess að niðurstaða bankans um álagningu stjórnvaldssektar hefði ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi afstöðu ríkis­saksóknara til gildis laga og reglna um gjaldeyrismál sem fullnægjandi refsiheimilda

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Bankinn byggði aftur á móti á því að þessi sjónarmið, um að bankinn hefði ekki byggt ákvörðun sína á fullnægjandi lagagrundvelli, hefðu legið fyrir þegar upphafleg ákvörðun var tekin um stjórnvaldssekt árið 2016. Afstaða bankans til þeirra hefði því verið ljós á þeim tíma.

„Umboðsmaður taldi að ekki hefði verið leyst með fullnægjandi hætti úr erindinu með svari Seðlabanka Íslands. Taldi umboðsmaður ekki séð að bankinn hefði tekið afstöðu til þeirra röksemda sem vísað hefði verið til beiðninni til stuðnings. Seðlabankanum hefði að minnsta kosti borið að leggja efnislegt mat á þær ástæður sem hann hefði byggt beiðni sína á, og þá einkum tilvísun hans til afstöðu ríkissaksóknara sem varðaði bráðabirgðaákvæði við lög um gjaldeyrismál og reglna seðlabankans um gjaldeyrismál og þá hvort þær upplýsingar hefðu getað haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Af því leiddi að umboðsmaður taldi svar Seðlabankans ekki í samræmi við lög.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

„Málið varð umboðsmanni jafnframt tilefni til að árétta fyrri sjónarmið sín sem hann kom á framfæri við stjórnvöld í bréfi í október árið 2015. Þar var m.a. vakin athygli á nauðsyn þess að þau stjórnvöld sem færu með athuganir og rannsóknir á meintum refsiverðum brotum, og þá einnig brotum sem kynnu að varða stjórnvaldssektum, gættu þess sérstaklega að fullnægjandi lagagrundvöllur væri til staðar. Í bréfinu hafði umboðsmaður lýst því að vafamál væri að Seðlabanki Íslands hefði haft fullnægjandi lagaheimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna meintra brota á reglum bankans um gjaldeyrismál. Benti umboðsmaður á að þar hefði hann að hluta gert sambærilegar athugasemdir og hefðu komið fram í afstöðu ríkissaksóknara um heimild seðlabankans til að leggja á stjórnvaldssektir.

Á þeim tíma sem umboðsmaður skrifaði bréfið, og fundaði með seðlabankanum í kjölfarið, var honum aftur á móti ekki kunnugt um umrædda afstöðu ríkissaksóknara og annarra ákærenda á árunum 2012-2014 í málum sem seðlabankinn hafði kært til þeirra og seðlabankinn hafði ekki gert honum grein fyrir henni. Umboðsmaður taldi þessi vinnubrögð, sem og skýringar bankans vegna þessa máls, til marks um vinnubrögð sem væru gagnrýniverð, m.a. í ljósi þess eftirlits sem umboðsmanni er falið lögum samkvæmt.

Þeim tilmælum var beint til seðlabankans að taka erindi viðkomandi til nýrrar meðferðar æskti hann þess og haga þá meðferð þess í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Jafnframt að bankinn tæki framvegis mið af þeim í störfum sínum. Í ljósi eftirlitshlutverks bankaráðs Seðla­banka Íslands sendi umboðsmaður því jafnframt afrit af álitinu til upplýsinga,“ að því er fram kemur á heimasíðu embættis Umboðsmanns Alþingis.

Álit umboðsmanns í máli nr. 9730/2018