Jón Kristján Brynjarsson, sem hefur starfað töluvert sem sjálfboðaliði fyrir Flokk fólksins undanfarin ár og m.a. haft félagsstarf með höndum, kallar eftir því að Inga Sæland, formaður flokksins, geri grein fyrir bankainnleggjum á kaffisjóði og afrakstri sumarfundar sem haldinn var í Háskólabíói.
„Hvenær fáum við sem unnum sjálfboðaliðastörf fyrir Flokk fólksins að sjá innleggsnótuna fyrir 470 þúsundum sem formaðurinn tók með heim eftir sumarþingið 2017?“ spyr Jón Kristján á fésbókinni og vísar til þess að Inga hafi lýst bókhald flokksins opið og gegnsætt.
Hann kveðst oft hafa óskað eftir þessum gögnum, án árangurs.
„Á fjölmennum sumarfundi Flokks fólksins í Háskólabíói í júlí 2017 söfnuðust í peningum um 470 þúsund krónur. Formaður flokksins fór með þessa peninga heim til sín. Hún hlýtur að geta lagt fram staðfestingu banka á að hún hafi lagt þetta fé inn á reikning flokksins. Eða hvað?“ bætir hann við.
Þá segir hann að á reglulegum vöfflufundum flokksins um pólitísk mál hafi jafnan verið safnað í svonefndan kaffisjóð. Kallar hann eftir kvittunum fyrir innlögnum á þeim fjármunum sömuleiðis.
Inga Sæland hefur ekki svarað fyrirspurnum Viljans um málið í dag.