Segir að landamæri Íslands muni opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar

Jón Þór Þorvaldsson, flugstjóri og varaþingmaður Miðflokksins.

Jón Þór Þorvaldsson, flugstjóri og þingmaður Miðflokksins (í leyfi Bergþórs Ólasonar) lýsti áhyggjum af því á Alþingi í vikunni að íslensk stjórnvöld muni skrifa á næstu dögum undir samning Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga á ráðstefnu sem boðað hefur verið til í Marrakech í Marokkó.

Jón Þór kveðst þess fullviss að yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar myndi setja spurningarmerki við þann samning ef því stæði til boða að taka afstöðu til hans.

„Afleiðing þessa samnings verður að landamæri Íslands munu opnast fyrir nánast öllum íbúum jarðar sem kjósa að flytja hingað burt séð frá stöðu,“ segir Jón Þór.

Bandaríkin ekki með, ýmis Evrópulönd ekki heldur

Í sumar náðist samkomulag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um samninginn milli aðildarríkja, embættismanna og farandfólksins sjálfs. Samkomulagið heitir Alheimssamkomulag um örugga, löglega og reglufasta fólksflutninga. Bandaríkin sögðu sig frá viðræðunum og munu ekki eiga aðild að samkomulaginu. Ráðherrar frá nokkrum ríkjum Evrópu, þar á meðal Danmörku, hafa tilkynnt að þeir ætli sér ekki að skrifa undir samkomulagið.

António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði samkomulaginu þegar það lá fyrir í sumar og sagði það „umtalsverðan árangur.” Hann sagði að það endurspeglaði þann sameiginlega skilning ríkisstjórna að fólksflutningar yfir landamæri ríkja væri í eðli sínu alþjóðlegt fyrirbæri og að skilvirk stýring krefðist alþjóðlegrar samvinnu til að tryggja jákvæðan árangur í þágu allra. Það staðfesti að hver einstaklingur ætti rétt á öryggi, reisn og vernd.

„Fljótt á litið er þarna um mannúðarmál að ræða, tilraun til að létta á þjáningu mannkyns og það væri vel ef eingöngu væri svo,“ sagði Jón Þór í ræðu sinni á þingi. „En fulltrúar þjóða sem hafa kynnt sér samninginn segja hann aðför að hinum frjálsa vestræna heimi því að í samningnum felst að þeir sem hann undirrita skuli innleiða lög í heimalandi sínu sem uppfylla það sem í samningnum felst, m.a. að tjáning gegn því sem í samningnum felst skuli flokkast undir hatursorðræðu og að viðurlög verði að loka megi fjölmiðlum sem gerast sekir um að taka þátt í slíkri umræðu. Með öðrum orðum skal hér gengið gegn grundvallarmannréttindum, stjórnarskrá lýðveldisins og vegið er að grunninum, að frelsi einstaklingsins og vestrænu samfélagi,“ sagði hann.

Ekkert verið rætt hér á landi

Þingmaðurinn benti jafnframt á, að samkomulagið hefði ekki fengið neina umfjöllun að ráði hér á landi. Því sé nú útlit fyrir að utanríkisráðherra eða fulltrúi hans, skuldbindi íslensk stjórnvöld eftir nokkra daga í víðtæku máli án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það hér á landi.

„Ég skora á Alþingi að ræða þennan samning sem og aðra sem á eftir munu koma. Ef satt reynist að í honum felist framsal fullveldis undir alþjóðalög eða hefting á grunngildum vestræns samfélags hljótum við að hafna undirritun slíkra samninga,“ sagði Jón Þór.