Segir baráttuna snúast um öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu

„Pólitísk umræða um heilbrigðiskerfið er nú hafin af fullum þunga. Þá heyrast þær raddir að vanda Landspítalans megi rekja til þess að of mikil áhersla hafi verið lögð á að efla hann. Það hafi verið gert á kostnað annarrar heilbrigðisþjónustu, þar á meðal á landsbyggðinni og — og það er hið stóra og — einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.“

Þetta segir Halla Gunnarsdóttir, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, og félagi í VG, en hún hvetur fólk í pistli á fésbókinni til að styðja Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í baráttu sinni fyrir áherslu á opinbera heilbrigðisþjónustu.

„Orkuhúsið er nefnt í sömu andrá og fæðingarþjónusta í dreifðum byggðum, svo dæmi sé tekið. Þarna er opinberri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þvælt saman við hagsmuni einkaaðila í heilbrigðisþjónustu og það er ástæða til að vara við slíkum málflutningi,“ segir Halla.

Hún segir að Svandís beri hag almannaþjónustunnar fyrir brjósti og sé með bæði réttar áherslur og öfluga langtímasýn. Þær aðgerðir sem gripið hafi verið til — allt frá eflingu grunnþjónstunnar til bættrar geðheilbrigðisþjónustu — séu til marks um það.

„Við sem viljum öfluga, opinbera heilbrigðisþjónustu verðum að styðja við þessar áherslur, þótt auðvitað þurfi að brýna fjárveitingarvaldið til að taka hinn fjölþætta vanda heilbrigðiskerfisins alvarlega,“ segir Halla.