Segir fiskveiðar mesta skaðvaldinn

Matsskýrsla Sameinuðu þjóðanna á fjölbreytileika lífríkis jarðarinnar, sem kom út  6. maí sl., hefur orðið pistlahöfundi The Guardian, George Monbiot, tilefni til þess að hvetja fólk til að hætta að borða fisk.

Í pistlinum heldur Monbiot  því m.a. fram, að skýrslan sýni það skýrt að helsta ógnin við lífríki sjávarins sé ekki mengun, loftslagsbreytingar, súrnun sjávarins eða plast. Hann fullyrðir að fiskveiðar séu mesti skaðvaldurinn, og hvetur fólk til að hætta að borða fisk, því að lífinu í sjónum hraki hraðar en lífríkinu uppi á landi.

Með vísun til skýrslunnar segir hann:

„Það var ekki orð um kolefniseldsneyti eða plastiðnaðinn – aðeins lausleg tenging við fiskiðnaðinn, sem er fegraður og verndaður af hagsmunaöflum.“

Monbiot fer mikinn í greininni og gagnrýnir regluleysi og brottkast í breskum fiskiðnaði, og hlífir heldur ekki Evrópusambandinu sem hann segir hafa mistekist að ná utan um fiskveiðar aðildarríkjanna. Friðanir hafsvæða séu ekki virtar, ofveiði sé stunduð utan lögsögu ríkja, og í lögsögum þróunarríkja af afkastamiklum fiskiðnaðarflota betur stæðra ríkja. Um þriðjungur fiskveiða í heiminum eru taldar vera ósjálfbærar. 

Útflutningsverðmæti sjávarafurða á Íslandi voru um 240 milljarðar króna í fyrra, og hefur aldrei verið meira. Um 90% íslensks landaðs sjávarfangs er sjálfbærnivottað með alþjóðlega staðlinum MSC, að því er fram kemur í Fiskifréttum.