Segir hættu á að ekki verði neitt Brexit

Breski forsætisráðherrann, Theresa May.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, flutti ræðu í leirkerjasmiðju í Stoke-on-Trent mánudaginn 14. janúar og sagðist óttast að til þess kynni að koma í neðri málstofu breska þingsins þriðjudaginn 15. janúar að úrsögn Breta úr ESB, Brexit, stöðvaðist yrði tillaga hennar um skilnaðarskilmála Bretlands og ESB ekki samþykkt.

„Mín skoðun er að afleiðingar þess að þingið hafni tillögunni muni einkennast af mikilli óvissu sem hafi í för með sér annað tveggja: Brexit án samnings og þar með uppnám í efnahagslífinu […] eða að ekki verði neitt Brexit,“ sagði forsætisráðherrann.

May sagði að í ljósi atburðarásarinnar í þingsalnum í fyrri viku væri líklegt að „málið stöðvist í þinginu og þar með skapist hætta á að ekki komi til Brexit“.

Með vísan til þessa lagði hún áherslu á hve mikilvægt væri að þingmenn styddu tillögu hennar og samkomulagið sem hún hefði þegar gert við Evrópusambandið. Gerðu þeir það ekki græfu þeir undan „lýðræðislegu ferli“ með því að stöðva Brexit.

Samkomulag May og ESB nær ekki fram að ganga nema þingið samþykki það. Hún féll frá að leggja málið undir atkvæði 11. desember af ótta við að það yrði fellt. Komi til þess skapast veruleg óvissa um framhaldið. Verði tillaga May samþykkt er ljóst hvert stefnir þótt ýmis vafamál vakni.

Í ræðu sinni nefndi May bréfaskipti sín við forystumenn ESB sem ætlað er að hvetja þingmenn til stuðnings við tillögu hennar. Það snertir meðal annars varnaglann svonefnda vegna Norður-Írlands sem miðar að því að ekki verði dregin „hörð“ landamæri á Írlandi milli breska hlutans á Norður-Írlandi og Írska lýðveldisins sunnar á eyjunni sem er alls 84.500 ferkílómetrar

Samkvæmt 50. gr. sáttmála ESB er gert ráð fyrir að Bretar fari úr ESB 29. mars 2019. Þegar May var spurð hvort hún vildi að úrsagnar-dagsetningin yrði færð fram í júlí hafnaði hún því.

Af vardberg.is, birt með leyfi.