Segir háværan minnihluta valta yfir umræðuna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Það er verið að halda fram rangfærslum og staðleysum um tiltekin mál, og það hefur ekki verið staðið upp gegn því fyrr en nú,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í samtali við Viljann. Hún beindi í gær fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þar sem hún spurði hvernig hún hygðist beita sér sem forystumaður ríkisstjórnarinnar, til að koma í veg fyrir að „úrtöluraddir“ um þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi nái yfirhöndinni með vafasömum áróðri.

Viljinn hafði samband við hana og innti hana eftir tilefni fyrirspurnarinnar, sem hún sagði hafa komið til vegna opnuauglýsingar ungs fólks í Fréttablaðinu í gær, sem þau fjármögnuðu sjálf og birtu myndir af sér, og lýstu yfir stuðningi við EES-samstarf Íslands með fyrirsögninni „Ekki spila með framtíðina okkar.“

„Við stjórnmálafólkið þurfum að stíga fram og ræða þetta. Það er dæmi um litla pólitíska forystu og dugleysi stjórnmálamanna hvernig allt er nú komið í steik í Bretlandi, þar sem Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn létu háværan minnihluta valta yfir sig í BREXIT málinu. Við þurfum að ræða þessi mál af alvöru, sérstaklega út af hulduauglýsingum.“

Þorgerður Katrín hrósar auglýsingu unga fólksins í Fréttablaðinu og segir: „Þau stíga þarna fram og kosta þetta sjálf. Þetta kalla ég að koma hreint fram og senda skýr skilaboð.“

Hættulegast þegar fólk þegir

„Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag,“ sagði Þorgerður Katrín jafnframt í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Viljinn spurði af því tilefni hvernig sú yfirlýsing rímaði við að óska eftir aðgerðum stjórnvalda gegn tjáningu og skoðunum þeirra sem eru henni ósammála.

„Af því að við þurfum að standa fyrir því að hafa hérna frjálst og opið þjóðfélag. Rangfærslur um tiltekin mál geta verið hættulegar. Það hættulegasta er, þegar fólk þegir,“ sagði Þorgerður Katrín og kvaðst hafa átt við aðgerðir stjórnvalda gegn nafnlausum áróðri og hulduauglýsingum, svipuðum þeim og birtust fyrir síðustu kosningar og hafa birst í kringum kosningar í öðrum löndum undanfarið.

Aðspurð um þá sem þora ekki, eða geta ekki komið fram undir nafni af ótta við stjórnvöld, eins og gengur og gerist víða í heiminum, segir Þorgerður Katrín:

„Ég er að meina að fólk sitji ekki hjá, en þori að stíga fram og mótmæla. Það segir mikið þegar fólk þorir að stíga fram.“