Segir Ingu Sæland hafa grátið á fundi til að ná fram sínu máli

Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins.

Sr. Halldór Gunnarsson, einn stofnenda Flokks fólksins, segir að grein alþingismannsins Karls Gauta Hjaltasonar í Morgunblaðinu í gær um Ingu Sæland og fjármál Flokks fólksins, sé sannleikanum samkvæm og staðfestir hann hvert orð í henni.

Halldór hefur sent fjölmiðlum yfirlýsingu þessa efnis.

„Sem fyrrverandi stjórnarmaður og fjármálaráðsmaður í Flokki fólksins, sem ég sagði mig frá vegna trúnaðarbrests við formann flokksins, vil ég staðfesta hvert orð í blaðagrein Karls Gauta,“ segir Halldór í yfirlýsingunni.

„Þegar þessi ummæli voru sögð hafði formaðurinn rétt áður farið að gráta á fundi með formönnum og þingflokksformönnum til að reyna að ná fram sínu máli, sem dugði ekki og var því tilefni þess, sem Karl Gauti sagði. Þar sem ég hafði reynt í langan tíma að sætta ólík sjónarmið í stjórnun, sem Karl Gauti hafði barist fyrir að yrði bætt, óskaði ég eftir því við Karl Gauta að hann myndi senda Ingu stuðningsyfirlýsingu, vegna þeirra orða sem hann lét falla, sem honum þótti erfitt, en gerði.“

Sr. Halldór Gunnarsson í Holti.

Halldór segist hafa beðið Ingu um að fyrirgefa Karli Gauta þau ummæli sem voru viðhöfð á Klausturbar. Hún hafi orðið við því og gert fram að hádegi daginn eftir, en skipst svo um skoðun, boðað til stjórnarfundar með ólöglegum fyrirvara og krafist þess að Karli Gauta og Ólafi yrði vikið úr flokknum sem hafi svo orðið niðurstaðan.

„Ekkert af því sem þeir sögðu á umræddum stað gat gefið tilefni til brottreksturs,“ segir Halldór. „Það er rangt að þeir hafi boðað til þessara umræðna eða verið að undirbúa brotthvarf frá Flokki fólksins. Brottreksturinn á sér enga hliðstæðu í lýðræðisríki,“ bætir hann við og segist hafa sagt sig frá störfum fyrir flokkinn vegna þessa trúnaðarbrests af hálfu Ingu Sæland.

Karl Gauti gagnrýndi í gær fjármálastjórn Flokks fólksins:

„Ég tel ekki for­svar­an­legt að formaður stjórn­mála­flokks sitji yfir fjár­reiðum hans með því að vera jafn­framt prókúru­hafi og gjald­keri flokks­ins. Þá get ég held­ur ekki sætt mig við að op­in­beru fé sé varið til launa­greiðslna í þágu nán­ustu fjöl­skyldumeðlima stjórn­mála­leiðtoga. Lands­lög kveða skýrt á um vandaða meðferð þeirra fjár­muna sem stjórn­mála­flokk­ar þiggja úr al­manna­sjóðum og er mik­il­vægt að eft­ir þeim sé farið,“ sagði hann.