Segir Íslendinga í liði með Trump í umhverfismálum

Jón Gnarr sendir stjórnvöldum tóninn fyrir tvískinnung í umhverfismálum í færslum sem hann hefur birt á facebook-síðu sinni. Hann baunar á stjórnvöld fyrir að bjóða mengandi stóriðju til landsins með kostum og kjörum, á meðan þvinga eigi almenning til að breyta um lífsstíl og neysluvenjur.

„Stærsti einstaki losunarflokkurinn er framræst votlendi. Stóriðjan er svakalega mengandi. Til gamans má nefna það að allur viður sem til fellur á Íslandi og þar með talið allt skógarhögg fer beint í brennsluofna álveranna, mest á Grundartanga. En það dugar ekki til svo Íslendingar flytja inn kol í massavís. Árið 2015 voru notuð 139 þúsund tonn af kolum á Íslandi. Samkvæmt eldsneytisspá Orkustofnunar var áætlað að notkunin ykist í 161 þúsund tonn 2016 og í 181 þúsund tonn 2017. Árið 2018 yrði hún orðin 224 þúsund tonn, sem er rúmlega 60% aukning á þremur árum. 60 fokking prósent aukning, með vilja og leyfi stjórnvalda, á meðan flestar aðrar þjóðir eru að draga úr kolabrennslu. Við erum bara með Trump í liði þarna.“

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefur nýlega lagt fram aðgerðaáætlun sem inniheldur m.a. bann við bensín- og díselbílum fyrir árið 2030. 

„Ísland framleiðir hlutfallslega meira rafmagn en nokkur önnur þjóð í heiminum. 77% þess fer til stóriðju. Ég er fyrir löngu orðinn þess fullviss að íslensk stjórnvöld ætla ekki að gera neitt í þessum málum eða axla sína ábyrgð heldur halda áfram að setja sérfræðingum sínum það verkefni að sýna venjulegu fólki fram á að þetta sé allt því að kenna og nú þurfum við öll að verða aðeins meira einsog sænska meinlætastelpan.“ 

Þetta sagði Jón í næstu færslu, þar sem hann vísar til hinnar sænsku sextán ára gömlu Gretu Thunberg, sem vakið hefur athygli fyrir að hvetja til mótmæla vegna loftslagsmála.