„Það er með ólíkindum að ég sem þingmaður skuli nú verða þvinguð til að taka umræðu um lagabreytingu sem brýtur gersamlega í bága við siðferðis- og lífsskoðanir mínar,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um umdeilt lagafrumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um fóstureyðingar.
Það sem helst er umdeilt við frumvarp Svandísar snýr að heimild til fóstureyðinga fram yfir 22. viku meðgöngu — sem er veruleg lenging frá því sem nú er — og áform um að hætta notkun hugtaksins fóstureyðing og nota þess í stað orðið þungunarrof.
Inga ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún lýsir beinni andstöðu við frumvarpið og segir að rökstuðningur, sem fylgi því að það komi engum við nema konunni sjálfri hvort ófullburða barni hennar sé eytt úr móðurkviði eftir 12 vikna meðgöngu, einkennist af öfga-femínisma.
„Hann á ekkert skylt við skoðanir meginþorra þjóðarinnar. Í þessum rökum er talað um frelsi konunnar, sjálfsákvörðunarrétt hennar yfir eigin líkama. Þá spyr ég: Hefur þetta frelsi verið skert með tilliti til þeirra fóstureyðinga sem framkvæmdar eru hér árlega? Svarið er einfalt. Það er NEI,“ skrifar hún.