Segir ónýtt blaðamannafélag aldrei taka til varna fyrir Morgunblaðið

Spursmál/mbl.is

„Það er víða sem Spursmál valda sálum landsins hugarangri. Eitt dæmið er af rithöfundinum Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, sem vill meina að viðtal mitt við Höllu Hrund Logadóttur, frá síðasta föstudegi sé ný „ósiðleg lægð“ í íslenskri blaðamennsku. Og henni finnst það ekki nóg. Rétt og siðlegt finnst henni að blanda konunni minni inn í málið og níða af henni skóinn – bara svona í kaupbæti. Þetta er manneskja sem gefur sig út fyrir að skrifa og gefa út barna- og unglingabækur. Reyndar á minn kostnað og annarra skattgreiðenda sem fáum ekkert að segja um þann fjáraustur sem engu skilar til samfélagsins,“ skrifar Stefán Einar Stefánsson blaðamaður á Morgunblaðinu og umsjónarmaður Spursmála, í færslu á fésbókinni þar sem hann svarar gagnrýni á þátt sinn fullum hálsi.

„Góðu fréttirnar eru þær að allur almenningur er mjög ánægður með fréttaþjónustuna sem felst í þessum viðtölum. Áhorfið á þau, umræður um þau eru svo mögnuð að maður getur ekki annað en auðmjúkur þakkað viðtökurnar. Fólk sem býr yfir þokkalegri hugarró og er laust við hatur í garð náungans sér að þessi viðtöl draga fram áhugaverða þætti í karakter og fortíð frambjóðendanna, en með slíkar upplýsingar í höndunum geta kjósendur betur ákveðið hvern þeir vilja sjá á stóli forseta næstu fjögur árin.

Eitt er þó satt og rétt í pistli rithöfundarins hugumprúða. Ég ek um á skriðdreka. Og honum verður ekið á fullri fart í gegnum þessar kosningar, rétt eins og í síðustu alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Vopninu er beitt í þágu tjáningarfrelsis og lýðræðis. Kommar á borð við Kristínu Helgu hafa alltaf haft horn í síðu þeirra gilda. Jafnvel þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega.

Þrátt fyrir árásir Kristínar Helgu og nokkurra annarra „málsmetandi“ menningarfrömuða á mig, konu mína, Spursmál og Morgunblaðið, heyrist ekki múkk í Blaðamannafélaginu, sem þó hefur haldið því fram að undanförnu að blaðamennska hafi aldrei verið mikilvægari. Það er nefnilega með það ónýta félag að það tekur aldrei til varna fyrir Morgunblaðið. Það er vegna þess að Blaðamannafélagið er ekki í blaðamennsku, það er bara í hreinni vinstri pólitík. En það er allt í lagi. Mogginn þarf ekki aðra sér til varnar. Mogginn á sína skriðdreka sjálfur,“ bætir blaðamaðurinn við.

Færslu Kristrínar Helgu má lesa hér að neðan.