Segir sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn

Hólmgeir Karlsson hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn.

Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri, hefur ákveðið að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn. Hólmgeir var stofnfélagi í Miðflokknum og hefur tekið ríkan þátt í starfi hans frá upphafi, meðal annars sem formaður kjördæmafélags Miðflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður Málefnanefndar, en segir nú svo komið að hann finni ekki lengur samhljóm með flokknum þar sem margt í starfi hans samrýmist ekki sínum gildum og viðhorfum til slíkrar vinnu.

Hólmgeir hefur undanfarið verið formaður uppstillingarnefndar Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins og fv. forsætisráðherra. Hart hefur verið tekist á, á bak við tjöldin um mögulega frambjóðendur í næstu sætum fyrir neðan Sigmund Davíð, en í síðustu kosningum skipaði Anna Kolbrún Árnadóttir 2. sætið og hlut kosningu á þing.

„Fyrir mér eru samvinna, samheldni, heilindi og samhugur gildi sem eiga að ráða för. Vettvangur þar sem fólk nýtur sannmælis og virðingar og á að geta unnið sig til metorða með verkum sínum og dugnaði,“ segir Hólmgeir í bréfi sem hann birti á umræðuvettvangi Miðflokksins í gærkvöldi.

„Í þannig umhverfi skapast liðsheild sem líkleg er til að vinna stóra sigra og langtímahugsun ræður för, en ekki skammtímahagsmunir einstakra aðila. Í slíku umhverfi þroskast fólk og verður hæfara, á möguleika að ná lengra, færast upp framboðslista eða vera valið til trúnaðarstarfa. Í þannig umhverfi getur hver og einn fundið krafta sína og unnið að gildum flokksins yfir lengra tímabil. Þessu er því miður ekki fyrir að fara með þeim hætti sem mér finnst eðlilegt og uppbyggilegt,“ segir Hólmgeir einnig í bréfi sínu.

Hann kveðst ekki ætla að fara út í nein smáatriði sem skaðað gætu flokkinn varðandi sínar ástæður fyrir þessari „sársaukafullu ákvörðun“ en þó ríði hér baggamuninn hvernig flokkurinn virðist ekki tilbúinn að efla sig til sóknar með því að virða og virkja reynslumiklar konur í liðssveit flokksins fyrir komandi kosningar.