Sérstakar ráðstafanir á Landspítalanum vegna opnunar landsins

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala hafa gefið út sérstakar reglur vegna opnunar landsins fyrir ferðamönnum innan Schengen-svæðisins sem tók gildi í nótt. Komufarþegar til Íslands eiga frá 15. júní 2020 kost á að fara í sýnatöku á landamærum í stað 14 daga sóttkvíar. Meðan það verður í boði gilda ákveðnar regur á Landspítala.

Í leiðbeiningum sóttvarnarlæknis til stofnana og fyrirtækja sem sinna ómissandi innviðastarfsemi er eindregið mælt með því að heilbrigðisstofnanir beiti áfram sérstökum sóttvarnarráðstöfunum eftir ferðir starfsmanna erlendis frá.

Frá 15. júní 2020 gilda þær reglur á Landspítala að starfsmenn og nemendur á spítalanum sem koma erlendis frá (sjá skilgreind áhættusvæði) 15. júní eða síðar og skila neikvæðu sýni eftir að hafa valið sýnatöku vegna COVID-19 á landamærum geta komið til starfa með sérstökum skilyrðum (sóttkví C).

Lýsing á tilgangi og framkvæmd sóttkvíar C er að finna í meðfylgjandi gæðaskjali.

Þá gilda sérstakar ráðstafanir um sjúklinga sem leita til Landspítala og hafa komið erlendis frá síðustu 14 daga (sjá skilgreind áhættusvæði).
Ef valið er að fara í sóttkví við komuna til landsins þá helst hún í 14 daga svo framarlega sem viðkomandi sé einkennalaus. Ef farið er í sýnatöku á landamærum og sýni er neikvætt og engin einkenni koma fram sem geta bent til COVID-19 þá fer viðkomandi í sóttkví á spítalanum. Ef viðkomandi hefur einkenni er hann settur í einangrun og tekið nýtt sýni. Nánari lýsingu á þessu verklagi er að finna í meðfylgjandi gæðaskjali um skimun.

Landspítalinn beinir þeim eindregnu tilmælum til gesta að heimsækja ekki veika aðstandendur á spítalann fyrr en 14 dögum eftir heimkomu erlendis frá. Ef aðstæður eru þannig að heimsókn er metin mikilvæg þá er heimsóknargestur beðinn um að vera með skurðstofugrímu og spritta hendur.

Þetta gildir aðeins að því gefnu að viðkomandi hafi engin einkenni sem geta bent til COVID-19 eða hafi umgengist einstakling með sjúkdóminn á síðustu 14 dögum.