Sérstaklega óhugnanlegt að banki beiti sér gegn fjölmiðlum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Nú hafa birst fréttir sem virðast vera einskonar markaðsbrella eða aprílgabb í október. En það mun ekki vera. Ríkisbankinn Íslandsbanki hyggst nú hlutast til um dagskrá fjölmiðla og mannaráðningar á fjölmiðlum og beita í því skyni fjármagni sínu, sem eðli máls samkvæmt er ríkisfé og fjármagn viðskiptavina bankans.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, spurði á Alþingi í morgun um viðhorf Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og þingmann Sjálfstæðisflokksins, um viðhorf hans til starfsemi Íslandsbanka. Þar vísaði hann fréttar Vísis í morgun „Íslandsbanki setur viðskiptabann á karllæga fjölmiðla“, en Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, hefur boðað að bankinn muni hætta viðskiptum við fjölmiðla sem ekki standist skilyrði um kynjajöfnuð í þáttagerð.

Búið að „flagga við þá aðila“ sem ekki hlýða stefnunni

Edda segir m.a. í samtali við blaðamann Vísis: 

„Kröfurnar sem við setjum eru þær að ef um mikinn kynjahalla er að ræða þá viljum við gera athugasemdir við það. Við erum búin að flagga við þá aðila. Við ætlum ekki að gefa það upp hverjir það eru. En, við erum að taka upp gögn og erum í viðræðum um það.“ Til skoðunar sé hjá rekstrardeildinni að kanna fleiri fyrirtæki.

„Er það að mati hæstvirtst fjármálaráðherra, eðlilegt að banki, ríkisbanki, nýti afl sitt í þvingunarskyni, fari í vegferð eins og það er kallað af hálfu bankans, og fleiri áhugamál bankans munu vera á sjóndeildarhringnum, þar sem að m.a. fjölmiðlar eiga á hættu að fylgi þeir ekki stefnu bankans, þá verði þeim refsað fjárhagslega,“ sagði Sigmundur Davíð og ítrekaði að sérstaklega óhugnanlegt væri að bankinn beiti sér gegn fjölmiðlum.

Útgjaldahliðinni beitt – en hvað með tekjuhliðina?

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

„Þetta kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir,“ var á meðal þess sem fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson svaraði. „Maður veltir því fyrir sér ef að ef bankinn vill leggja áherslu á jafnrétti og grænar lausnir í sinni starfsemi, hvar bankinn hyggist draga mörkin í því.“ Hann benti á að ríkisfyrirtæki störfuðu samkvæmt eigendastefnu sinni, og að stjórnvöld hefðu undanfarið lagt áherslu á málaflokka eins og jafréttismál og grænar lausnir, en sagði jafnframt:

„En ef menn ætla að taka þá [málaflokka] og gera að einhverju aðalatriði í sinni starfsemi, þá finnst mér ákveðninn tvískinnungsháttur í því að ætla að gera það eingöngu á útgjaldahlið bankans en ekki á tekjuhliðinni.“

Bjarni velti því þannig upp hvort að bankinn muni í framhaldinu neita þeim um viðskipti sem ekki starfa eftir þessari hugmyndafræði – eða hvort þessi flokkun eigi aðeins við um útgjöld en ekki þegar hann hagnist, og segir vera „takmörk fyrir því hversu langt menn geta siglt frá þeim áherslum sem birtast í eigendastefnu ríkisins.“ Bjarni sagði að lokum það vera nýjar fréttir fyrir sér að þessar áherslur séu að birtast, þær séu ekki skv. eigendastefnunni, sem sé nú til endurskoðunar.