Sérstakur sykurskattur er í eðli sínu galinn, jafnvel þó hann væri eingöngu hugsaður sem tekjuöflun ríkissjóðs. Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í nýrri færslu á fésbókinni.
„Hærri og íþyngjandi skattar hafa ekki leitt til betri heilsu nokkurs manns. Sennilega leiðir það til hins gagnstæða, að minnsta kosti hvað andlega heilsu varðar,“ segir hann.
„Í gamla daga, þegar ég var ungur, voru áfengis- og tóbaksgjöld hækkuð mjög reglulega og langt umfram verðþróun. Hafði það engin áhrif á neysluna en leiddi til aukins smygls þegar verst lét. Þjóðin þambar áfengi sem aldrei fyrr þrátt fyrir heimsmet í skattlagningu en tóbaksneysla hefur breyst, sem hefur ekkert með skattlagninguna að gera.
Sykur er ekki nýtt fyrirbæri sem hefur gert okkur feit á skömmum tíma. Við erum feitari nú en áður vegna þess að étum meira og hreyfum okkur minna. Þetta vita skattafíklarnir hjá Landlækni. Má ekki ætla að þjóð sem glímir við meira þunglyndi, depurð og kvíða en aðrar þjóðir verði feitari en gengur og gerist? Það er nú talsverð huggun i mat og drykk.
Því er ekki að neita að offita er stórkostleg heilsuvá og ekkert óeðlilegt við að menn leiti allra ráða til að spyrna við fæti. Í þeirri viðleitni felst engin óvirðing eða fordómar gegn feitu fólki. Vill einhver segja þessum félagsskap um líkamsvirðingu að þessi umræða snýst um heilsu fólks en ekki útlit þess,“ bætir þingmaðurinn við.