Sérstakur viðbótarstuðningur fyrir fátæka eldri borgara

Verst settu einstaklingarnir í hópi aldraðra eru þeir sem hafa takmörkuð réttindi í almannatryggingum á Íslandi vegna fyrri búsetu erlendis, hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum, lifa eingöngu eða nánast eingöngu á bótum almannatrygginga, eða búa í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu eigin húsnæði. Líklegt þykir að hluti hóps aldraðra falli undir nokkra eða alla fyrrnefnda flokka og búi þannig að öllum líkindum við fátækt.

Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem fjallað hefur um kjör þeirra í hópi aldraðra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og hefur verið kynnt ráðherra.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra skipaði á síðasta ári starfshópinn. Þótt marg­ir eldri borg­ar­ar búi við góð lífs­kjör hefur hluti hóps­ins tak­mörkuð eða eng­in rétt­indi úr líf­eyr­is­sjóðum og stundar ekki launuð störf. Þeir sem þannig eru sett­ir þurfa nær ein­göngu að reiða sig á elli­líf­eyri al­manna­trygg­inga og greiðslur hon­um tengd­um sér til fram­færslu. Starfshópurinn var undir forystu Hauks Halldórssonar en var auk þess skipaður fulltrúum stjórnvalda og hagsmunasamtaka eldri borgara. Starfshópurinn hefur nú skilað tillögum sínum til ráðherra og voru þær kynntar í ríkisstjórn fyrir skömmu.  

Lagt er til að gripið verði til sértækra aðgerða til að bæta kjör verst settu hópa aldraðra hér á landi og eru lagðar til tillögur í því sambandi. Þannig verði komið á fót félagslegu kerfi eða sérstökum viðbótarstuðningi fyrir þá sem ekki hafa áunnið sér full réttindi í almannatryggingum hér á landi, eða húsnæðisstuðningur aukinn. Leggur starfshópurinn til að sett verði sérstök löggjöf um félagslega aðstoð ríkisins þar sem heimilt verði að veita viðbótarstuðning til einstaklinga sem ekki hafa búið nægjanlega lengi á Íslandi til að hafa öðlast full réttindi til ellilífeyris á Íslandi. Er þar gert ráð fyrir að stuðningur þessi verði á vegum ríkisins og greiðist eingöngu þeim sem eru löglega búsettir og dvelja á Íslandi.

Áætlaður kostnaður ríkisins, ef tillögur starfshópsins komast til framkvæmda, væri á bilinu 300-400 milljónir króna á ársgrundvelli.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra segir að það sé skýr stefna ríkisstjórnarinnar að koma til móts við þá hópa samfélagsins sem höllustum fæti standa. Hann tekur undir með tillögu hópsins og segir að hann muni nú fari í gang vinna við lagafrumvarpsgerð og aðra innleiðingu á þessum tillögum. 

Starfshópurinn um kjör aldraðra var skipaður 26. apríl 2018. Í honum sátu Haukur Halldórsson, formaður, Arnar Þór Sævarsson, án tilnefningar, Bergþóra Benediktsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneytinu, Hilda Hrund Cortez, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti og síðan Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Guðrún Árnadóttir, öll tilnefnd af Landssambandi eldri borgara.

Starfshópnum var falið að fjalla um kjör eldri borgara í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þær ólíku aðstæður sem eldri borgarar búa við og koma með tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem búa við lökustu kjörin.

Starfshópurinn fór yfir stöðu og kjör aldraðra á víðum grunni og hafa ýmsir þættir komið til skoðunar, svo sem tekjur og eignir aldraðra, fjárhæðir lífeyris, skerðingar vegna tekna, sveigjanleg starfslok, skattareglur, húsnæðisstuðningur og fleira.