Sérstök framkvæmdanefnd um Grindavík

Þær féllust í faðma á blaðamannafundi í morgun, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að leggja fram á Alþingi lagafrumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um að stofnuð verði sérstök framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringa og áhrifa þeirra á byggð og samfélag. Í frumvarpinu er lagt til að nefndin fari með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða, tryggi skilvirka samvinnu við sveitarstjórn og opinbera aðila og hafi heildaryfirsýn yfir málefnum Grindavíkurbæjar. 

Fram kemur í tilkynningu innviðaráðuneytisins, að frumvarpið sé unnið í samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík. Lagt er til að framkvæmdanefndin starfi tímabundið og að lögin falli úr gildi við næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2026.

„Grindvíkingar hafa tekist á við mörg krefjandi verkefni í vetur vegna jarðhræringa og hafa í þeim verkefnum sýnt mikla samstöðu og notið stuðnings allra landsmanna. Stjórnvöld hafa jafnt og þétt kynnt nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við samfélagið í Grindavík og sú vinna heldur áfram. Tilgangurinn með sérstakri framkvæmdanefnd er að skapa skýra umgjörð um verkefnin framundan og tryggja  úrlausn þeirra. Meginmarkmiðið er að samfélag Grindvíkinga geti dafnað og að hlúa að íbúum bæjarins til framtíðar,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra í tilkynningunni.

Hlutverk og umboð framkvæmdanefndar

Frumvarpið gerir ráð fyrir að framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur verði fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hafi með höndum fjölþætt verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík. Með því að setja sérstök lög um starf framkvæmdanefndarinnar er hlutverk og umboð nefndarinnar skýrt. 

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mun áfram fara með stjórn sveitarfélagsins, starfsmannahald og bera ábyrgð á og hafa fullt fjárstjórnunarvald yfir lögbundnum og ólögbundnum verkefnum, sem framkvæmdanefnd eru ekki falin sérstaklega.
Framkvæmdanefndin verður skipuð þremur einstaklingum og tekur til starfa við gildistöku laganna.  Innviðaráðherra skipar einn fulltrúa, sem jafnframt verður formaður, mennta- og barnamálaráðherra einn og dómsmálaráðherra einn.

Verkefni framkvæmdanefndarinnar snúa einkum að samfélagsþjónustu og framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík. Mörgum þessara verkefna hefur til þessa verið sinnt af Almannavörnum og öðrum stjórnvöldum. Helstu verkefni nefndarinnar eru:

• Starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. skóla- og frístundastarf, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðning á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála.
• Hafa umsjón með nauðsynlegum viðgerðum á samfélagslegum innviðum og könnun á jarðvegi. Einnig með nauðsynlegum viðgerðum til að tryggja virkni og afhendingaröryggi mikilvægra innviða o.fl. 
• Umsjón með vernd verðmæta og framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.

Þá verður innviðaráðherra heimilt að fela nefndinni að fara með samhæfingu verkefna sem kunna að vera á höndum annarra stjórnvalda með samþykki þeirra fagráðuneyta sem málasviðið heyrir undir. Loks verður sveitarstjórn Grindavíkurbæjar einnig heimilt að fela nefndinni tiltekin lögbundin eða ólögbundin verkefni.