Sex á Landspítala með COVID-19, þar af tveir á gjörgæslu

Sex sjúklingar liggja nú á Landspítalanum með COVID-19, þar af tveir á gjörgæslu. Þetta er mikil aukning á stuttum tíma, en á föstudag voru tveir inniliggjandi vegna veirunnar.

Á upplýsingasíðu Almannavarna, Covid.is, segir að fimm liggi nú inni á spítalanum, en Viljinn hefur upplýsingar um að sjötti sjúklingurinn hafi verið lagður inn í gær.

Alls greindust 32 með kórónaveiruna hér á landi sl. sólarhring og voru sautján þeirra í sóttkví. 525 eru nú í einangrun hér á landi og 1.620 í sóttkví.

Nýgengi veirunnar hér á landi (uppsafnaður fjöldi smita sl. 14 daga per hverja hundrað þúsund íbúa) heldur áfram að hækka og er nú 135,3 og það þýðir að Ísland er nú komið á topp tíu lista Sóttvarnastofnunar Evrópu yfir fjölda smita í hverju landi.

Meðal þeirra sem nú glíma við veiruna eru þrír aldraðir íbúar á Hjúkrunarheimilinu Eir, en starfsmaður þar greindist í síðustu viku eftir að hafa unnið í návígi við nokkra vistmenn.