Sex aðilar byggja ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Tölvugerð mynd af íbúðabyggingu Þorpsins í Gufunesi.

Sex aðilar munu hefja byggingu á ódýrari íbúðum í Reykjavík fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á næstu misserum ef áform og fjármögnun ganga eftir.

Þessir aðilar munu byggja á lóðum sem hafa verið teknar frá fyrir slíkar íbúðir. Borgarráð hefur nú samþykkt slík lóðarvilyrði á níu reitum og hafa þrír hópar skilað gögnum um fjármögnun og fengið fullgild lóðarvilyrði. Þetta eru Frambúð sem þróar byggð í Skerjafirði, Vaxtarhús sem vinnur að verkefni á reit Sjómannaskólans og Urðarsel í Úlfarsárdal.

Því til viðbótar samþykkti borgarráð fimm vilyrði þar sem aðilum var gefinn átta vikna frestur til þess að tryggja fjármögnun eiginfjár sem nemur 20% af áætluðum byggingarkostnaði verkefnisins.

Af þessum fimm hópum hafa nú tveir þegar skilað til borgarinnar gögnum um fjármögnun og teljast þeirra vilyrði því fullgild. Þetta eru Þorpið og Hoffell sem vinna að því að þróa hagkvæmt húsnæði í Gufunesi.

Framkvæmdir gætu hafist innan tveggja ára

Þá hefur borgarráð samþykkt að auglýsa breytingar á deiliskipulagi á tveimur reitum sem tengjast verkefninu; annars vegar á Sjómannaskólareit og hins vegar við Gufunes.

Einn hópur er enn innan tímamarka með sitt vilyrði en það er Investis sem er að þróa byggð á Kjalarnesi. Enn á eftir að ráðstafa reitum í Bryggjuhverfinu til verkefnisins og verður gengið frá því á næstunni, að því er segir frá á vef Reykjavíkurborgar.

Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að leggja fram lóðir á sjö stöðum fyrir verkefnið. Þetta voru ríkislóðir í Skerjafirði, við Sjómannaskólann og á Veðurstofuhæð. Auk þess lagði borgin fram þróunarlóðir við Gufunes, Ártúnshöfða, Grundarhverfi á Kjalarnesi og nýju hverfi í Úlfarsárdal.

Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir á reitunum geti hafist á næstu 12 til 24 mánuðum.