Sex ár frá fundinum fræga sem aldrei var haldinn

Myndin er skjáskot af fundarboðinu, tekin af facebooksíðunni þar sem færslan birtist á facebook.

Þá er 30. janúar runninn upp og ástæða til að minna á fundinn – sem reyndar var aldrei haldinn. Þar áttum við að fá útskýringu á því af hverju við hefðum tapað Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum – sem óvart dæmdi okkur í vil en ekki Vilhjálmi!

Þetta segir í færslu á facebook-síðunni Icesave-samningarnir – Afleikur aldarinnar? sem Sigurður Már Jónsson blaðamaður og höfundur bókarinnar (Forlagið, 2011), heldur úti.

Í færslunni er verið að vísa til opins fundar sem Samfylkingin hafði boðað til fyrir akkúrat sex árum, 30. janúar 2013 með Vilhjálm Þorsteinsson, frumkvöðul, sem frummælanda, til að fara yfir tap Íslands í Icesave-deilunni fyrir EFTA-dómstólnum.

Sigurður Már Jónsson.

Vilhjálmur hafði gefið sig mikið í þetta mál og vildi semja. Samfylkingin hafði sett sig í stellingar með þessu fundarboði sem féll svo um sjálft sig, þar eð Ísland hafði sögulegan sigur í málinu er dómur féll 28. janúar 2013 og Ísland var sýknað af öllum liðum málsins. 

Viljinn heyrði í Sigurði Má sem hafði þetta að segja:

„Ég hef það gert það að áhugamáli mínu að halda utan um Icesave-umræðuna, sem rís og hnígur, á þessari facebook-síðu. Lögfræðileg niðurstaða dómsins var mikilvæg og skipti Íslendinga mjög miklu máli.

Það eru alltaf tilraunir til að endurskrifa söguna með ýmsum hætti, en mér finnst að menn megi vera duglegri við að kynna sér dómsorðið sjálft sem er mjög vel skrifað og niðurstaðan mikill sigur fyrir málstað Íslands og þá sem töldu ekki rétt að taka afarkostum”.