„Opinber smánun er refsiaðferð sem á sér aldalanga forsögu og hefur, sem betur fer, að mestu verið aflögð í hinum siðmenntaða heimi. En opinber smánun er ekki aðeins aðferð til að refsa heldur einnig leið fyrir suma til að seilast í gæði hvort sem það eru efnahagsleg gæði eins og peningar eða óefnisleg gæði eins og lýðhylli, svo dæmi séu tekin. Í stað gapastokksins og brennimerkinga sem áður tíðkuðust birtist hin opinbera smánun nú í umfjöllun fjölmiðla og samfélagsmiðla um fólk. Hún felst til dæmis í því að fjöldi manna ýmist hneykslast, skammar, heimtar afsögn eða brottrekstur úr starfi, ærumeiðir eða hótar ofbeldi gagnvart tilteknum einstaklingum vegna tiltekinnar hegðunar sem mönnum er ekki að skapi. Tilgangurinn með orðfærinu er að smána viðkomandi persónur opinberlega og niðurlægja þær en um leið að skreyta sig sjálfan æðri dygðum.“
Þetta segir Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um Klausturmálið og þá sem vilja viðhalda umræðu um þingmennina sem komu þar við sögu.
Hróbjartur segir mikilvægt að grandvarir fjölmiðlar átti sig á þeim hagsmunum sem til staðar eru í samfélaginu til að viðhalda umfjöllun um einstaklinga sem flokka má undir opinbera smánun þegar þeir fjalla um mál af þessu tagi. Ekki verði annað sagt en þeir þingmenn sem sátu að sumblinu á Klausturbar hafi setið undir opinberri smánun um langa hríð.
Þá segir hann að fjölmiðlar, og Ríkisútvarpið sérstaklega, eigi að gæta þess að láta ekki misnota sig og hafa í huga að pólitískir andstæðingar þingmannanna, á þingi og utan þess, hafi beinan hag af því að viðhalda hinni opinberu smánun á þeim til þess að veikja þá sem andstæðinga sína.
Á Alþingi halda ýmsir andstæðingar þeirra smánuninni áfram af fullri hörku
„Ófáir þingmenn og aðrir hafa skreytt sig með sjálflýstum dygðum sínum og viðhaldið hneyksluninni á hátterni þingmannanna. Á Alþingi halda ýmsir andstæðingar þeirra smánuninni áfram af fullri hörku svo sem með því að neita að vinna með þeim, heimta afsögn þeirra úr nefndum og annað álíka í því skyni að upphefja sjálfa sig og mögulega til að hrekja þá af þingi. Og fara svo hart fram að þingið virðist vera illa starfhæft. Landsdómsmálið ætti, eitt og sér, að kenna fólki að siðferðileg gagnrýni stjórnmálamanna á pólitíska andstæðinga er ekki tíkallsins virði. Svo er það ekkert nýtt að pólitíkusar detti í það og líklega hafa ýmis orð þá fallið af þeirra vörum um menn og málefni sem ekki þola eyru almennings.Það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum fremur en öðrum, hygg ég.
Fjölmiðlar sem vilja teljast ábyrgir, og þá sérstaklega Ríkisútvarpið, hafa ýmsum skyldum að gegna, meðal annars þeim að gæta þess að fjalla með málefnalegum hætti um viðkvæm mál og forðast kranablaðamennsku og einelti. Opinber smánun í fjölmiðum er í eðli sínu ekkert annað en árás á æru og persónu manna með sama hætti og fúkyrðin sem látin voru flakka á Klausturbar voru það, nema ef til vill verri þar sem opinber smánun er ásetningur til að niðurlægja viðkomandi opinberlega. Það má því vart á milli sjá hvort sé verra í þessu Klaustursmáli svonefnda þegar upp er staðið, „glæpurinn“ eða „refsingin“!“ segir Hróbjartur.