Siðferðileg gagn­rýni á póli­tíska and­stæðinga er ekki tíkalls­ins virði

Hróbjartur Jónatansson lögmaður.

„Op­in­ber smán­un er refsiaðferð sem á sér alda­langa for­sögu og hef­ur, sem bet­ur fer, að mestu verið af­lögð í hinum siðmenntaða heimi. En op­in­ber smán­un er ekki aðeins aðferð til að refsa held­ur einnig leið fyr­ir suma til að seil­ast í gæði hvort sem það eru efna­hags­leg gæði eins og pen­ing­ar eða óefn­is­leg gæði eins og lýðhylli, svo dæmi séu tek­in. Í stað gapa­stokks­ins og brenni­merk­inga sem áður tíðkuðust birt­ist hin op­in­bera smán­un nú í um­fjöll­un fjöl­miðla og sam­fé­lags­miðla um fólk. Hún felst til dæm­is í því að fjöldi manna ým­ist hneyksl­ast, skamm­ar, heimt­ar af­sögn eða brottrekst­ur úr starfi, ærumeiðir eða hót­ar of­beldi gagn­vart til­tekn­um ein­stak­ling­um vegna til­tek­inn­ar hegðunar sem mönn­um er ekki að skapi. Til­gang­ur­inn með orðfær­inu er að smána viðkom­andi per­són­ur op­in­ber­lega og niður­lægja þær en um leið að skreyta sig sjálf­an æðri dygðum.“

Þetta segir Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um Klausturmálið og þá sem vilja viðhalda umræðu um þingmennina sem komu þar við sögu.

Hróbjartur segir mik­il­vægt að grand­var­ir fjöl­miðlar átti sig á þeim hags­mun­um sem til staðar eru í sam­fé­lag­inu til að viðhalda um­fjöll­un um ein­stak­linga sem flokka má und­ir op­in­bera smán­un þegar þeir fjalla um mál af þessu tagi. Ekki verði annað sagt en þeir þing­menn sem sátu að sumbl­inu á Klaust­ur­bar hafi setið und­ir op­in­berri smán­un um langa hríð.

Þá segir hann að fjölmiðlar, og Ríkisútvarpið sérstaklega, eigi að gæta þess að láta ekki misnota sig og hafa í huga að póli­tísk­ir and­stæðing­ar þingmannanna, á þingi og utan þess, hafi bein­an hag af því að viðhalda hinni op­in­beru smán­un á þeim til þess að veikja þá sem and­stæðinga sína.

Á Alþingi halda ýms­ir and­stæðing­ar þeirra smán­un­inni áfram af fullri hörku

„Ófáir þing­menn og aðrir hafa skreytt sig með sjálflýst­um dygðum sín­um og viðhaldið hneyksl­un­inni á hátt­erni þing­mann­anna. Á Alþingi halda ýms­ir and­stæðing­ar þeirra smán­un­inni áfram af fullri hörku svo sem með því að neita að vinna með þeim, heimta af­sögn þeirra úr nefnd­um og annað álíka í því skyni að upp­hefja sjálfa sig og mögu­lega til að hrekja þá af þingi. Og fara svo hart fram að þingið virðist vera illa starf­hæft. Lands­dóms­málið ætti, eitt og sér, að kenna fólki að siðferðileg gagn­rýni stjórn­mála­manna á póli­tíska and­stæðinga er ekki tíkalls­ins virði. Svo er það ekk­ert nýtt að póli­tík­us­ar detti í það og lík­lega hafa ýmis orð þá fallið af þeirra vör­um um menn og mál­efni sem ekki þola eyru al­menn­ings.Það er ekk­ert nýtt und­ir sól­inni í þeim efn­um frem­ur en öðrum, hygg ég.

Fjöl­miðlar sem vilja telj­ast ábyrg­ir, og þá sér­stak­lega Rík­is­út­varpið, hafa ýms­um skyld­um að gegna, meðal ann­ars þeim að gæta þess að fjalla með mál­efna­leg­um hætti um viðkvæm mál og forðast krana­blaðamennsku og einelti. Op­in­ber smán­un í fjöl­miðum er í eðli sínu ekk­ert annað en árás á æru og per­sónu manna með sama hætti og fúkyrðin sem lát­in voru flakka á Klaust­ur­bar voru það, nema ef til vill verri þar sem op­in­ber smán­un er ásetn­ing­ur til að niður­lægja viðkom­andi op­in­ber­lega. Það má því vart á milli sjá hvort sé verra í þessu Klaust­urs­máli svo­nefnda þegar upp er staðið, „glæp­ur­inn“ eða „refs­ing­in“!“ segir Hróbjartur.