Sífellt fleira fæst nú staðfest sem kom fram í bók minni

Björn Jón Bragason rithöfundur.

„Mér sýnist sem sífellt fleira fáist nú staðfest sem fram kom í bók minni Gjaldeyriseftirlitið frá árinu 2016,“ segir Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og rithöfundur, í samtali við Viljann um þær niðurstöður innri endurskoðanda Seðlabankans, að forsvarsmenn gjaldeyriseftirlits bankans hafi unnið náið með fréttamönnum Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitarinnar hjá Samherja á sínum tíma og m.a. hafi drög að frétt um húsleitina verið send bankanum til yfirlestrar áður en húsleitin fór fram.

Eins og Viljinn skýrði frá um helgina, hefur Seðlabankinn birt minnisblað endurskoðandans. Fram að þessu hafði yfirstjórn Seðlabankans staðfastlega neitað því að upplýsingum um húsleitina hefði verið lekið til Ríkisútvarpsins.

Umboðsmaður Alþingis vakti athygli á leka trúnaðarupplýsinga til RÚV í bréfi til forsætisráðherra í mars sl.

„Aðdragandinn að húsleit Seðlabankabankans var allur rakinn í bókinni. Í rauninni er mjög undarlegt að bankanum skyldi hafa verið veitt húsleitarheimild enda fæst það tæplega staðist og samræmist ekki hlutverki bankans,“ segir Björn Jón ennfremur og bætir við að þau mál hefðu átt að vera í höndum lögreglu.