„Raunverulegi slagurinn er rétt að byrja. Það er langt síðan ríkisstjórnin boðaði innleiðingu þriðja orkupakkans og mánuðum saman hafa þau reynt að finna út úr því hvernig umbúðir væri hægt að setja utan um pakkann til að fá fólk til að taka við honum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í samtali við Viljann í kvöld.
„Ef þau trúa því raunverulega að það fáist fyrirvarar hefði tímanum verið betur varið í að senda pakkann aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar og fá fyrirvarana staðfesta þar.
Í staðinn er þetta kynnt með þeim hætti að við eigum að innleiða pakkann að fullu en um leið sé bókaður vilji þingsins til að fjalla um lagningu sæstrengs í framtíðinni. Á sama tíma er lagt fram frumvarp um að gera Orkustofnun sjálfstæða frá íslenskum kjósendum og breyta henni í einhvers konar undirstofnun ACER, orkustofnunar ESB.” bætir hann við.
Nú hefur utanríkisráðherra bent á að sú leið sem farin er taki mið af greinargerð Stefáns Más [Stefánssonar] og Friðriks Árna [Friðrikssonar Hirst]. Ertu ósáttur við það mat?
„Þeir eru báðir mjög góðir fræðimenn og greinargerðin vel unnin. Hins vegar lögðu þeir til aðra leið, þ.e. er að senda málið til baka en ráðherrann kaus að stökkva á ábendingu um hugsanlega fyrirvaraleið sem skýrsluhöfundarnir bentu þó á að væri ekki gallalaus. Einnig taka þeir fram að það þurfi að taka afstöðu til stjórnarskrármála óháð fyrirvörunum.
Í viðtölum hefur Stefán Már sagt að það sé ekki hans að taka afstöðu til pólitískra álitaefna sem tengjast málinu heldur aðeins að svara þeim lagalegu spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Það held ég að hann geri vel. En þegar hann var t.d. spurður út í að fyrirvarar sem við áttum að hafa varðandi matvælainnflutning hafi ekki haldið svaraði hann því til að hann teldi dóminn gegn Íslandi í því máli rangan. Það held ég að sé rétt hjá honum en við höfum bara séð svo oft að pólitísk markmið vega þyngra hjá ESB en það sem kemur fram í textanum.
Salamíaðferðin vel þekkt
Með samþykki orkupakkans værum við algjörlega berskjölduð gagnvart markmiðum ESB hvað sem líður einhverri viljayfirlýsingu Alþingis sem samþykkt væri á sama tíma.”
Hver telur þú að þau markmið séu?
„Við sáum það nú bara ljóslifandi í frétt Viljans í gærkvöldi um fimmta orkupakkann. Þar vill ESB afnema andmælarétt ESB ríkjanna og ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir því að sambandið stjórni orkumálum en ekki ríkin. Í fjórða orkupakkanum eru þeir meira að segja farnir að tala um landsvæði fremur en ríki. Það er hins vegar þriðji orkupakkinn sem leggur grunn að þessu með því að láta löndin staðfesta kerfið sem mun fara með stjórnina.
viðbæturnar í pökkum fjögur og fimm snúast um að taka ríkin alveg út úr myndinni
Þetta kerfi er reyndar þegar byrjað að stjórna samkvæmt þriðja pakkanum, viðbæturnar í pökkum fjögur og fimm snúast um að taka ríkin alveg út úr myndinni.
Hvernig eigum við svo að rökstyðja það að við ætlum ekki að innleiða 4. og 5. þegar okkar eigin stjórnvöld segja að við verðum að taka upp 3. fyrst við innleiddum 1. og 2. Þetta er auðvitað rangt hjá þeim en sýnir samt nákvæmlega aðferðina sem ESB hefur alltaf notað til að auka völd sín.
Salamíaðferðin sem leiðtogi ungverskra kommúnista kallaði svo til að lýsa því hvernig hann hefði lagt Ungverjaland undir kommúnismann og Sóvíetríkin með því að taka bara eina sneið í einu af sjálfstæði Ungverjalands og saka þá sem andmæltu um öfgar.
Slagurinn um framtíðaryfirráð yfir orkuauðlindum landsins er núna, ekki fyrir 15 árum og ekki einhvern tíma seinna heldur núna.
Svo er það bara almennt góð regla að opna ekki pakka sem tifar.”