Sigmundur Davíð einn gegn innleiðingu orkupakkans í utanríkismálanefnd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Allir fulltrúar stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna — utan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, stóðu saman að nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar um þriðja orkupakkann, en mælt var fyrir því í seinni umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í dag og stendur umræðan enn.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og ritari Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir nefndarálitinu, en Sigmundur Davíð skilaði einn áliti fyrir hönd minnihlutans.

Ásamt Áslaugu Örnu stóðu þau Ari Trausti Guðmundsson (VG), Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, Logi Einarsson Samfylkingu, Rósa Björk Brynjólfsdóttir VG, Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokki, Smári McCarthy Pírötum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir úr Viðreisn að álitinu.

Í áliti meirihlutans segir að umræðan um þriðja orkupakkann hafi orðið til þess að beina kastljósinu að mikilvægi EES-samningsins.

„Frá upphafi EES-samstarfsins hafa EFTA-ríkin innan EES aldrei beitt neitunarvaldi varðandi upptöku gerða í EES-samninginn. Þá hefur það heldur aldrei gerst að ríki neiti að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar,“ segir í álitinu. Þar segir jafnframt að hin mikla umræða að undanförnu um orkustefnu ESB sé gott veganesti inn í samningaviðræður vegna fjórða orkupakkans sem nú er í mótun hjá sambandinu.

„Sjónarmið Íslands þurfa að heyrast strax í upphafi. Í því samhengi fagnar meiri hlutinn nýlegri fjölgun sérfræðinga ráðuneyta í sendiráði Íslands í Brussel. Alþingi hefur jafnframt lagt sitt af mörkum með nýjum reglum um þinglega meðferð EES-mála sem tóku gildi í september sl. og setja í forgang eftirlit með ESB-gerðum á fyrri stigum.“

Valdaframsal og vafi á að standist stjórnarskrá

Í  áliti minnihluta Sigmundar Davíðs í nefndinni segir að ekki hafi verið sýnt fram á að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins standist stjórnarskrá og lýst verulegum áhyggjum af því valdframsali sem í innleiðingu hans felst og áhrifum á framtíðarskipan orkumála á Íslandi.

Sigmundur Davíð segir ljóst að markmið þriðja orkupakkans samrýmist ekki hagsmunum Íslands.

„Á það bæði við um tengingu raforkukerfa Evrópulanda á forsendum ESB þar sem sambandið leggur m.a. línurnar um verð orkunnar og heimildir til að skipta upp raforkufyrirtækjum. Á Íslandi er framleidd umhverfisvæn, endurnýjanleg orka sem seld er á umtalsvert lægra verði en annars staðar í Evrópu. Hér á landi er orkan að mestu framleidd af einu fyrirtæki sem er í almannaeigu. Sjónarmið um að brjóta þurfi upp stór fyrirtæki í orkuframleiðslu og auka með því samkeppni eiga því ekki við hér og snúast raunar upp í andhverfu sína með tilliti til markmiða um neytendavernd.“

Bendir hann á að orkuauðlindin sé ein mikilvægasta, jafnvel almikilvægasta, auðlind Íslands. Íslensk heimili og fyrirtæki njóti góðs af því að næg hrein orka sé í boði á lægra verði en annars staðar í Evrópu.

„Mörg dæmi eru um að ríki fái undanþágur frá ákvæðum EES-samningsins. Ísland hefur t.d. undanþágur varðandi skipaskurði og járnbrautir enda eiga þau ákvæði ekki við hér á landi. Er varðar orkumál hefur verið veitt undanþága varðandi jarðgas enda ekki fyrir hendi neinn útflutningur þess frá Íslandi. Því skyldi ekki veitt undanþága varðandi raforku á sömu forsendum?“ segir hann ennfremur í minnihlutaáliti sínu.