Sigmundur Davíð hvetur Breta til þess að leysa Brexit með EES aðild

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að Bretland muni dafna eftir útgönguna úr Evrópusambandinu, hvort sem það verður með útgöngusamningi eður ei. Ég segi þetta sem fyrrverandi forsætisráðherra lands, Íslands, sem yfirgaf Evrópusambandið áður en það gekk nokkru sinni í það og hefur síðan dafnað á þann hátt sem óhugsandi hefði verið ef áætlanir um aðild hefðu orðið að veruleika. Ég hygg að Bretlandi geti dregið lærdóm af reynslu Íslendinga og fundið leið til þess að forðast meiriháttar vandræði þegar kemur að útgöngunni hinn 31. október.“

Þetta skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í grein í breska stjórnmálaritið The Spectator í dag.

Það rit er eitt þekktasta sinnar tegundar í heimi og fjallar vikulega um stjórmál, menningu og listir og þjóðmál og hefur gert frá árinu 1828. Það er í eigu sömu aðila og stórblaðið The Daily Telegraph og meðal ritstjóra þess í gegnum tíðina má nefna Boris Johnson, sem nú er forsætisráðherra Breta og situr uppi með þann beiska kaleik að þurfa að ná niðurstöðu í Brexit á næstu dögum og vikum.

Sigmundur Davíð bendir á í grein sinni, að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu kringum kosningarnar 2013 og ríkisstjórn hans hafi formlega afturkallað umsóknina tveimur árum síðar. Þetta hafi verið talið nauðsynlegt til að geta byggt íslenskt efnahagslíf upp aftur.

Árangurinn hafi ekki látið á sér standa. Ísland hafi fljótlega verið komið með hæstu þjóðarframleiðslu á mann af öllum þróuðum ríkjum og mestu skuldalækkun nokkurs lands í nútímasögu. Atvinnuleysi hafi minnkað mjög og á sama tíma hafi verið fjárfest rösklega í heilbrigðisþjónustu og öðrum innviðum.

Segir hann að þeim aðferðum sem beitt var við viðsnúninginn hefði ekki verið unnt að beita, hefði Ísland verið innan ESB og hluti af myntsamstarfi Evrópu, bundið af reglum sambandsins og Evrópska seðlabankans. Miklu líklegra er að niðurstaðan hefði orðið í ætt við það sem Grikkir hafi mátt þola.

Bendir Sigmundur Davíð á að ekki hafi skort bölsýnisspár þegar aðgerðir þessar stóðu sem hæst, svipað og Bretar þoli nú. Þess vegna vilji hann nú benda Bretum á EES-aðild sem kost tímabundið. Það gæti verið til nokkurra ára eða lengur og færi eftir þeim tíma sem þyrfti til að gera viðeigandi ráðstafanir.

Með aðild að EES kæmist Bretlandi út úr ESB fyrir 31. október næstkomandi, en gæti engu að síður haft viðskiptafrelsi gagnvart Evrópusambandinu. Á sama tíma gæti það gert fríverslunarsamninga við önnur lönd heims, svipað og Íslendingar hafi gert, og í slíkum samningaviðræðum gæti Bretar samið út frá styrk.

Hann bendir aukinheldur á að landamæragæsla yrði ekki vandamál, ekki frekar en slíkt sé vandamál milli ríkja á borð við Noreg og Svíþjóð eða Þýskaland og Sviss. Bretland sé ekki aðili að Schengen svo það flæki ekki málið, en með útgöngu fái landið aftur yfirráð yfir fiskimiðum sínum eins og Íslendingar og geti gert eigin ráðstafanir í landbúnaðarmálum.