Sigmundur Davíð vill nýta fullveldi Íslands og semja beint um bóluefni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, vill að Ísland nýti fullveldisrétt sinn til að leita eigin samninga um kaup á bóluefni.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sem sendar voru út í læstri dagskrá í fyrsta sinn í kvöld, kom fram að Ísland hafi skuldbundið sig til að kaupa bóluefni samkvæmt samningum Evrópusambandsins. Ekki sé hægt að kaupa bóluefni framhjá þeim samningum.

„Fréttir Stöðvar 2 staðfestu það sem ég óttaðist og velti upp í færslu fyrir tæpri viku. Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja ESB í kaupum á bóluefni og gera ekki eigin samninga. En eins og ég nefndi virðist ESB landið Þýskaland hafa gefist upp á klúðrinu og leitar nú eigin samninga. Það eigum við að gera líka,“ segir Sigmundur Davíð í færslu á fésbókinni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í fréttum Stöðvar 2, að ekki sé mögulegt fyrir Ísland nú að ganga til samninga við önnur lyfjafyrirtæki en séu í samningum við Evrópusambandið.

„Ráðuneytið gerði samninga við Lyfjastofnun Evrópu. Samkvæmt þeim er Ísland skuldbundið til að kaupa bóluefni í samræmi við samningana. Það er jafnframt skuldbundið til að kaupa ekki bóluefni framhjá þeim samningum. Það er engin vinna í gangi að kaupa bóluefni framhjá þessum samningum,“ sagði sóttvarnalæknir.