Sigríður Á. Andersen segir af sér sem dómsmálaráðherra

Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Sigríður Á. Andersen hefur sagt af sér sem dómsmálaráðherra. Hún sagðist vilja stíga til hliðar, þar sem hennar persóna kynni að trufla þá vinnu sem þarf að ráðast í vegna niðurstöðu MDE frá í gær. 

Ekki liggur fyrir hvort Sigríður hefur sagt alfarið af sér, eða stígur tímabundið til hliðar. Það ræðst á ríkisstjórnarfundi síðar í dag.

„Skipan dómara er flókin og veldur ólgu.  Ég hef gert það sem ég hef talið réttast, á hverjum tíma, með heiðarleika, gagnsæi og í breiðri sátt. Ég skynja að persóna mín kann að trufla í framhaldinu. Skjóta þarf dómnum til yfirréttar og eftir atvikum kveða upp dóm eða fjalla um atvikið. Ef þetta yrði bindandi að þjóðarrétti fyrir Ísland, þá hefur dómurinn áhrif um alla Evrópu, með ófyrirséðum hætti. Það er því mikilvægt að fá niðurstöðu, einkum og sér í lagi í ljósi sér atkvæða,“ sagði Sigríður.

„Ég hef skynjað að mín persóna kann að trufla ákvarðanir sem þarf að taka og í því ljósi hef ég ákveðið að stíga til hliðar til að skapa vinnufrið næstu vikurnar, þar sem spurningum og álitaefnum verði svarað. Legg til að dómur verði skotið til yfirréttarins. Það verður þá í höndum annarra að vera fyrir dómsmálaráðuneytið á meðan því máli vindur áfram,“ sagði hún og sagði ákvörðunina alveg vera sína og hún hefði rætt hana við formann Sjálfstæðisflokksins, en hefði ekki rætt þetta við forsætisráðherra.

Hún upplýsti þetta á blaðamannafundi sem hófst kl. 14.30 í ráðuneytinu í dag.