Sigríður flutti 50 þúsund evrur til landsins gegnum fjárfestingarleiðina

Dr. Sigríður Benediktsdóttir.

Sigríður Benediktsdóttir flutti 50 þúsund evrur gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans til landsins þann 15. febrúar 2012, þegar skipunartími hennar sem framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands var hafinn. Nokkrum dögum fyrr hafði bankinn sett reglur sem bönnuðu tilteknum starfsmönnum bankans að taka þátt í fjárfestingarleiðinni og hafði hafnað nokkrum beiðnum um undanþágur þar að lútandi.

Morgunblaðið skýrir frá því í dag að Sigríður hafi nýtt sér þessa leið þrátt fyrir stöðu sína, en þar segir að hún hafi flutt 15 þúsund evrur til landsins ásamt eiginmanni sínum.

Viljinn sendi Sigríði fyrirspurn í dag, þar sem heimildir hans innan úr Seðlabankanum, hermdu að þessi tala væri ekki rétt.

Fyrirspurnin hljóðaði svo:

Sæl Sigríður,

Skv heimildum Viljans innan úr Seðlabankanum var fjárhæðin sem þið hjón fluttuð til landsins gegnum fjárfestingarleiðina umtalsvert hærri en sú upphæð sem þú upplýsir um í Morgunblaðinu.

  1. Hvernig skýrir þú misræmið?
  2. Þótti þér eðlilegt að gera þetta í ljósi þess að reglurnar voru settar eftir að skipunartími þinn hófst?
  3. Öðrum starfsmönnum bankans í sambærilegum stöðum var synjað um undanþágu. Hvers vegna ekki þér?
  4. Gerði þetta þig ekki vanhæfa til að taka sæti og að þér formennsku í nefnd um hæfi umsækjenda um stól seðlabankastjóra? Meðal umsækjenda voru aðilar sem samþykkt höfðu undanþágu fyrir þig.

Í skriflegu svari sínu staðfestir Sigríður að upphæðin hafi verið hærri, en fram hefur komið.

Hún segir að hún hafi svarað því til, að hún hafi tekið þátt í fjárfestingarleiðinni fyrir lágmarksupphæð, en hún hafi ekki munað nákvæmlega hver hún var. Seinna um kvöldið hafi hún sent blaðamanni þau svör að hún hefði ekki aðgang að reiknisyfirlitum frá þessum tíma en að lágmarksfjárhæðin hafi verið 50.000 evrur inn í 50/50 leiðina, það er helmingur á uppboðsgengi og helmingur á innanlandsgengi. Það skýri misræmið í svörum sínum.

Varðandi 2. til 4. spurningu frá Viljanum, segir Sigríður:

„Varðandi 2-4 þá tel ég að Seðlabankinn muni svara því en get bara sagt að ég taldi mig og manninn minn vera að fara að lögum og reglum.“

Seðlabankinn hefur afhent Viljanum afrit af ákvörðun þeirri að heimila Sigríði að fara fjárfestingaleiðina.