Sigurður Ingi ætlar að keyra fram sameiningar sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem innleiðir á ný ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Samkvæmt frumvarpinu verður lágmarksíbúafjöldi 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 og 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.

Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með fimmtudagsins 27. febrúar 2020.

Frumvarpið er það fyrsta sem lagt er fram af hálfu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins og ráðherra sveitarstjórnarmála, til að ná fram markmiðum nýsamþykktrar þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023.

Málið er umdeilt og mörg smærri sveitarfélög eru því algjörlega andsnúin, en meirihluti sveitarfélaga á landinu er því fylgjandi.

„Með þingsályktuninni var stigið mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta enn frekar þjónustu við íbúana. Mikil áhersla er á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi þeirra og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Stefnumörkunin í heild sinni með þeim 11 aðgerðum sem skilgreindar eru skapa heildstæða nálgun á umrædd markmið og segja má að með áætluninni sé stigið þýðingarmikið skref í umbótum á opinberri stjórnsýslu á Íslandi,“ segir á vef ráðuneytisins.

Ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga hefur lengið verið í sveitarstjórnarlögum og var það ekki fyrr en við lögfestingu núgildandi sveitarstjórnarlaga árið 2011 sem slíkt ákvæði var afnumið. Var getið um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum á tímabilinu frá 1961 til ársins 2011 og hafa nokkrar sameiningar sveitarfélaga farið fram á því tímabili að frumkvæði ráðherra. Lögfesting ákvæðis um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga í þeim tilgangi að tryggja sjálfbærni þeirra er því ekki nýmæli í íslenskum rétti.

Miðað við þúsund íbúa

Hvað varðar lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga er lagt til að aftur verði tekið upp ákvæði í sveitarstjórnarlög sem kveður á um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og að miðað verði við 1.000 íbúa. Þá er lagt til að haldið verði í þá reglu sem áður var að finna í sveitarstjórnarlögum frá 1986 og 1998 um að miða skuli við að íbúafjöldi sveitarfélaga þurfi að vera undir lágmarksíbúamarkinu þrjú ár í röð, áður en ráðuneyti sveitarstjórnarmála beri að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

Þá verður ráðherra fengin heimild til að veita sveitarfélagi tímabundna undanþágu til allt að fjögurra ára frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda, ef sérstakar félagslegar eða landfræðilegar aðstæður eru til staðar.

Nýtt ákvæði um málsmeðferð

Í drögum að frumvarpinu er einnig lagt til að tekið verði upp nýtt ákvæði um málsmeðferð við sameiningu sveitarfélaga að frumkvæði ráðherra. Þar er lögð áhersla á vandaðan undirbúning og gert ráð fyrir að aflað verði upplýsinga um vilja íbúanna í þessum efnum. Þá er í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins lagt til að sveitarfélögum sem hafa íbúafjölda undir lágmarki verði veittur aðlögunarfrestur áður en kemur að því að ráðherra eigi frumkvæði að sameiningu viðkomandi sveitarfélags. Þannig hafi ráðherra ekki frumkvæði að því að sameina sveitarfélög, sem hafa færri íbúa en 250, fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2022. Sömuleiðis hafi hann ekki frumkvæði að því að sameina sveitarfélög, sem hafa færri íbúa en 1000, fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2026. Nýrri sveitarstjórn gefist því gott svigrúm til að móta stefnu og taka frumkvæði sem leiðir til þess að ákvæðum laganna er framfylgt. Með því er lögð áhersla á að frumkvæði þurfi að vera í höndum íbúa viðkomandi sveitarfélaga í samræmi við meginanda laganna um lýðræðislega aðferð við val á sameiningarkostum, en að það sé þrautaleið að ráðherra þurfi að beita umræddri heimild.

Þetta frumvarp er fyrsta skrefið í að framfylgja þingsályktun um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi þann 29. janúar sl. Starfshópur vinnur nú að breytingum á fjármálakafla sveitarfélaga, sem tengist fjórða lið þingsályktunartillögunnar, og búist er að við að vinnu hópsins ljúki innan tíðar. Þá munu önnur atriði og verkefni tillögunnar koma til skoðunar og framkvæmda á næstu misserum, að því er greint er frá á vef ráðuneytisins.