Sigurður Ingi sakar VG um að kalla eftir lífskjararýrnun

Deilur innan ríkisstjórnarflokkanna um orkumál náðu nýjum hæðum á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag, þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, sagði ekki hægt fyrir skynsamt fólk að mótmæla því að orkuskortur væri hér á landi, þegar nýta þyrfti díselolíu til að knýja verksmiðjur og hita upp heimili í heilu landshlutunum. Sakaði hann Vinstri græn um að kalla í reynd eftir lífskjararýrnun með því að kalla eftir að loka einhverjum fyrirtækjum og losa þannig um orku, enda þýddi það atvinnumissi fyrir fjölda fólks og umtalsvert tap þjóðartekna.

Þetta kom fram í spjalli Sigurðar Inga við Ingibjörgu Ísaksen, formann þingflokks Framsóknar, á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag, sem fer fram undir yfirskriftinni: Kletturinn í hafinu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr formaður Vinstri grænna, sagði einmitt í vikunni að einfaldasta leiðin til aukinnar orkuöflunar væri að spara orku í kerfinu sem nú þegar er til staðar. Önnur leið væri að nýta orku sem hugsanlega gæti losnað um hjá stórnotendum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, sagði á fundi með sjálfstæðismönnum um síðustu helgi: „Við þurfum ekki flóknara regluverk, við þurfum miklu, miklu einfaldara regluverk. Við þurfum ekki fleiri áætlanir um minni losun, við þurfum græna orku. Og mikið af henni, strax.“

Greinilegt er að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur kalla eftir átaki í virkjanamálum, en það mætir harðri andstöðu hjá Vinstri grænum sem segja að nýta megi orkuna betur sem þegar er til staðar og nýjar virkjanir eigi aðeins að nýta til orkuskipta.

Þetta er þeim mun athyglisverðara, að ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við stjórnartaumum fyrir aðeins fáeinum dögum og ein meginniðurstaðan þá var að ráðast í sérstakt átak í orkumálum. Lítil innistæða virðist fyrir fullyrðingum um samstöðu í þeim efnum millum stjórnarflokkanna, en það eru reyndar engin sérstök tíðindi fyrir þá sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum.