Símarnir gróðrarstía Kórónaveirunnar: Ertu búin/n að sótthreinsa þinn?

Ógnarhröð útbreiðsla Kórónaveirunnar um allan heim hefur enn einn ganginn beint sjónum okkar að sýklum og almennu hreinlæti. Hvatt er til handþvotta, sóhtthreinsispritt er að finna á öðru hverju borði og margir bera andlitsgrímur til þess að freista þess að koma í veg fyrir smit eða að smita aðra.

En læknar segja nú að einn hættulegasti skaðvaldurinn þegar kemur að útbreiðslu veirunnar séu símarnir okkar, sem við notum ótal sinnum á dag og getum ekki verið án.

Samkvæmt nýrri rannsókn Journal of Hospital Infection, sem fólst í því að rannsaka síma 250 heilbrigðisstarfsmanna, getur Kórónaveiran lifað góðu lífi á yfirborði síma í allt að níu daga. Kenneth Mak, sóttvarnalæknirinn í Singapúr, segir enda að mikilvægara sé að sótthreinsa snjallsímann reglulega en að ganga með andlitsgrímu.

Rannsókn frá því í fyrra bendir til þess að fólk snerti símann sinn að jafnaði 2.617 sinnum á degi hverjum og venjulegur sími beri að jafnaði tiu sinnum fleiri bakteríur en klósettseta. Ástæðan er sú, að við þrífum hann allt of sjaldan.

Því skal fólk hér með hvatt til þess að þvo hendurnar. Og sótthreinsa svo símann sinn. Ekki seinna en strax.