Sitjum uppi með ríkisstjórn sem vill banna plastpoka en leyfa eiturlyf

Ríkistjórninni hefur liðið vel í skjóli faraldursins og treystir nú á að vandræðagangurinn á fyrstu árum kjörtímabilsins og svikin kosningaloforð hafi gleymst, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra á landsfundi flokksins sem hófst í dag í Kópavogi.

Hann sagði að Miðflokkurinn hafi sem stjórnarandstöðuflokkur verið í hlutverki varnarliðs á kjörtímabilinu sem lýkur í haust. Á næsta kjörtímabili þurfi að hefja sókn fyrir landið.

„Við höfum setið uppi með ríkisstjórn sem skilgreindi sig strax í upphafi sem kerfisstjórn. Stjórn sem ætlaði ekki að taka á stórum pólitískum málum heldur leyfa tannhjólum kerfisins að hafa sinn gang.
Ríkisstjórnarflokkarnir voru glaðir, alla vegar ráðherrarnir, að fá sína stóla og tækifæri til að raða rétta fólkinu inn í stjórnkerfið,“ sagði hann.

Sigmundur Davíð sagði að hvað eftir annað hefði Miðflokkurinn skorið sig úr á kjörtímabilinu fyrir að ræða innihald og raunverulegar afleiðingar mála fremur en umbúðir og yfirlýst markmið. „Stjórnarflokkarnir treysta hins vegar á að svikin kosningaloforð og ýmis vafasöm mál séu nú gleymd. Merkilegast er þó að nú ber í auknum mæli á því að ráðherrar og þingmenn meirihlutans lýsi sig sammála okkur en geri svo eitthvað allt annað í atkvæðagreiðslu. Það á t.d. við um breytt fyrirkomulag vegna hælisleitenda. Við sitjum þannig uppi með ríkisstjórn sem vill banna plastpoka en leyfa eiturlyf,“ bætti hann við.

Í ræðu sinni beindi Sigmundur Davíð mjög spjótum sínum að Framsóknarflokknum, sínum gamla flokki, sem hefði verið fljótur að fórna kosningaloforðum um að byggja nýjan spítala á nýjum stað. Eftirmaður hans í stóli formanns Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, hefði hvað eftir annað látið borgarstjórann í Reykjavík „plata “ sig og ríkisstjórnina til að samþykkja hverja þá vitleysu sem honum dytti í hug, til dæmis um flutning Reykjavíkurflugvallar, innheimtu vegatolla á höfuðborgarsvæðinu og lagningu borgarlínu. Þar með hefði ríkið tekið að sér að fjármagna helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar.

Þá vék hann tali sínu að málefnum innflytjenda og sagði skipulögð glæpasamtök ekki aðeins misnota hælisleitendakerfið, heldur hafi þau nú yfirtekið fíkniefnamarkaðinn á Íslandi að miklu leyti og aukið framboð sterkra fíkniefna. Skýrslur greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um þetta væru sláandi lesning og óskiljanlegt að þær hafi ekki vakið meiri athygli, en raun ber vitni.