„Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum en nú er svo komið að Samfylkingin mælist með yfir 90% fylgi í skoðanakönnunum á meðan allir aðrir flokkar mælast samanlagt með tæp 10%.“ Svona hefst grein í Morgunblaðinu í vikunni, eftir verkfræðinginn Geir Ágústsson.
Hann gagnrýnir að stefnuskrá Samfylkingarinnar sé nú ríkjandi plagg á meðal flestra flokka og segir rauða þráðinn vera vaxandi ríkisvald, fleiri reglugerðir, færri verðmætaskapandi störf og fleiri opinber stöðugildi. Það megi skrifa á eltingarleik allra stjórnmálaflokka við skoðanakannanir og flótta þeirra frá hugsjónum.
Geir sendir Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum eitraðar pillur og kallar flokkana „Eftirhermu-Samfylkingar.“
Hann minnist orða formanns Sjálfstæðisflokksins, sem kvað flokkinn „engan frjálshyggjuflokk“ á sínum tíma. Forysta flokksins kjósi yfirleitt með stærra ríkisvaldi, meira regluverki og jafnvel skertu viðskipta- og athafnafrelsi, með fáum undantekningum þó.
Vinstri græna segir Geir hafa byrjað sem róttækan sósíalistaflokk sem stefndi í ævarandi stjórnarandstöðuflokk með lítið fylgi, en hafi óvænt hafi stór flokkur eftir að hann hafi farið að laga stefnu sína að skoðanakönnunum, og hafi orðið að Samfylkingunni.
Miðflokkurinn skeri sig úr en stefnuskráin ekki glæsilegt plagg
„En undantekningar finnast. Miðflokkurinn hefur að einhverju leyti valið að skrifa sína eigin stefnuskrá, sem er að vísu ekki glæsilegt plagg en nógu frumlegt til að stuða blaðamenn Samfylkingarinnar.“
Ýmis ungliðasamtök ríghaldi þó í vonina að hugsjónir skipti máli, ásamt einstaka þingmanni sem tali út frá eigin brjósti, en verði í staðinn af ráðherrastóli.
„Dettur engum í hug að skapa sér sérstöðu og höfða til kjósenda á grundvelli hugsjóna og stefnufestu? Að vera ekki alltaf að lofa fé annarra og sértækum aðgerðum? Að velja ekki alltaf ríkisvaldið umfram frjálst samfélag?“
Að lokum segir hann: „Það er mín skoðun að kjósendur vilji valkosti en ekki bara mismunandi umbúðir utan um sama innihaldið. Hleypum hugsjónum aftur inn í íslensk stjórnmál, takk.“