Sjálfstæðisflokkurinn er eins og Samfylkingin var fyrir tíu árum

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins á fundinum í gærkvöldi. / Viljinn: Erna Ýr.

„Við megum ekki gefast upp á þessari þróun, við verðum að vera svarið við henni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins á opnum fundi kjördæmaviku í Rúgbrauðsgerðinni í gærkvöldi, en hann gerði ógnvænlega þróun í stjórnmálum í heiminum ásamt skorti á ákvörðunum, stefnu og framtíðarsýn stjórnmálamanna að sérstöku umræðuefni.

Fullt hús var á fundinum, og hafði fundarstjórinn, Baldur Borgþórsson, orð á því að ánægjulegt væri að sjá svo marga gesti þrátt fyrir leik Manchester United í Meistaradeildinni sem byrjaði á sama tíma, kl. 20.

Sigmundur Davíð lýsti ánægju með góða mætingu og hrósaði Miðflokknum og einstaklingum innan hans fyrir að hafa staðist mikla ágjöf með yfirvegun og þolinmæði.

„Þróunin í heiminum er að gera hefðbundna stjórnmálaflokka óvinsæla, en skoða þarf hve tækifærin eru vanrækt og úrlausnarefnin líka“, sagði hann.  Miðflokknum hafi ekki verið mætt með rökræðu, heldur á öðrum vígvelli sem henti andstæðingunum betur.

„Þeim verður þó ekki kápan úr því klæðinu, því Miðflokkurinn hefur stóra eiginleika til að ná árangri, eins og getuna til að finna lausnir og þolgæði til að standast ágjöf. Fyrir vikið er ég fullur tilhlökkunar að taka slaginn áfram, um leið og umræðan fer að snúast í auknum mæli um stjórnmál, mun Miðflokkurinn uppskera og ná árangri.“

Ímynd og sjálfsmyndarpólitík

Stjórnmálin snúist nú um eitthvað allt annað en það sem raunverulega skipti máli, og nefndi Sigmundur þar ímynd og sjálfsmyndarpólitík, sem gangi þvert gegn grundvallarreglum vestrænna réttarríkja.

Ófrávíkjanlegar staðreyndir séu á undanhaldi, eins og jafnræði allra einstaklinga fyrir lögum og stjórnvöldum, að allir skuli hafa óskert tjáningarfrelsi, njóti friðhelgi einkalífs, og að öllu yfirvaldi bæri að fara fram af sanngirni. 

Fullt var út úr dyrum á fundinum í Rúgbrauðsgerðinni í gærkvöldi. / Viljinn: Erna Ýr.

„Það sem maður hefði talið sjálfgefið og óumdeilt, er nú í hættu. Við sjáum að í auknum mæli er farið að dæma hvað fólk segir og gerir út frá því hverjir það eru, en ekki hvað það er sem er sagt og gert.“

Tjáningarfrelsið sé ítrekað skert, ógnvænleg dæmi birtist í fréttum daglega, t.d. frá Bretlandi sem lengi státaði sig af því að vera heimaland tjáningarfrelsisins. Háskólar séu hættir að leita að sannleikanum og einbeiti sér nú frekar að innrætingu. „Sumsstaðar er rætt um það í fullri alvöru, að menn geti ekki leyft tjáningarfrelsi því það sé notað til að koma á framfæri óæskilegum skoðunum og ræða það líka í fullri alvöru að ekki sé endilega hægt að líta til staðreynda, því þær geti verið til þess fallnar að skila annarri niðurstöðu en hugsjónin.“

Ekki búin undir Brexit

Í alþjóðamálum séu að verða ótrúlegir viðburðir sem íslensk stjórnvöld virðist ekki búin undir. Þann 29. mars nk. kl. 11 gangi Bretland úr Evrópusambandinu. Hann kannast við ástandið sem er þar, heimamenn reyni að skemma fyrir samningsstöðu síns eigin lands, á meðan sé ESB í algjöru uppnámi. Tók hann sem dæmi deilur Frakklands og Ítalíu þar sem sendiherra var kallaður heim á dögunum, sem gerist varla nema ríki eigi í alvarlegum deilum, eins og vopnuðum átökum. Myndast hafi tvær blokkir í ESB og fullkomin óvissa um þróunina, sem sé áminning til Íslendinga hve mikilvægt það sé að ráða málum okkar sjálf og dragast ekki inn vandann. Máli skipti að geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir.

Hinn rauði þráðurinn í ræðu hans var gagnrýni á stórt og fyrirferðarmikið kerfi, þar sem ákvarðanir hafi verið teknar, engin viti lengur hvar eða hvenær, en kerfið haldi áfram að vinna, sama hvað komi í ljós á meðan á því standi og enginn viti á endanum hver niðurstaðan verði. Þar tók hann dæmi um samgönguáætlun og Þjóðarsjóð, sem samtímis eigi að fjármagna með sömu peningunum, arðgreiðslum úr Landsvirkjun. Fleiri dæmi séu Landspítalinn, 82% launahækkun Landsbankastjórans og fyrirhuguð bygging höfuðstöðva Landsbankans, um ákvarðanir sem muni skila allt annarri niðurstöðu en upphaflega stóð til, og benti á tilhneiginguna til að slíkt gerist þegar kerfið byrji að ráða sér sjálft. 

Óvenju mikið af vannýttum tækifærum

Sigmundur benti þó á að mörg sóknarfæri og óvenju mikið af vannýttum tækifærum séu í sjónmáli til að gera breytingar.„Þegar við lítum yfir pólitíska völlinn, þá sjáum við að fjölmörg mál hafa verið í biðstöðu. Við ætlum að snúa okkur að pólitískri umræðu, að málunum sem þarf að berjast fyrir, því það hentar ekki okkur eða samfélaginu að láta þau reka á reiðanum,“ og nefndi hann þar sérstaklega vinnumarkaðsmálin, landbúnaðarmálin, byggðamálin, fjármálakerfið og lífeyrissjóðakerfið.

Sigmundur gagnrýndi stjórnarflokkana í ræðu sinni, Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa yfirgefið sín prinsip til að verða ímyndarflokkur, hann sé nú flokkur sjálfsmyndarstjórnmála eins og svo margir aðrir flokkar og líkti honum við Samfylkinguna fyrir 10 árum.  Stefnuskrá Framsóknarflokksins í síðustu kosningum hafi öll reynst marklaus og ekki þurfi að rekja það sérstaklega. Einhverjir í Vinstri grænum reyni að keyra áfram sína pólitísku hugmyndafræði í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, en því miður sé það ekki hugmyndafræði sem skili samfélaginu árangri.

„Við lítum á þetta sem áréttingu um skynsemisstefnu, sem er að leita lausnanna út frá staðreyndum og rökræðu, þar sem menn hafi rétt á því að velta upp ólíkum sjónarmiðum en komast svo að lýðræðislegri niðurstöðu. Þetta þarf að fara saman, að standa vörð um grundvallarreglurnar og hamra á málefnunum og rökunum fyrir því hvernig best sé að framkvæma hlutina.“