Sjálfstæðisflokkurinn lék aðalhlutverkið, skrifaði handritið, lögin og dansana

„Ég skil ekki enn afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli því að orðin eru oft svo ólík gjörðunum. Sjálfstæðisflokkurinn lék aðalhlutverkið, hann skrifaði handritið, hann skrifaði lögin og dansana þótt hæstv. forsætisráðherra hafi hugsanlega séð um leikstjórn síðustu árin,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, á þingi í dag þar sem hælisleitendamál og fjölskyldusameiningar palestínskra flóttamanna frá Gaza voru til umræðu.

„Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar eins og Samfylkingin að skipta um áherslur í þessu þá fagna ég því,“ bætti hann við og gaf lítið fyrir þær skýringar þingmanna Sjálfstæðisflokksins, eða það sem hann kallaði „furðulegustu útskýringu eða afsökun sem fram hefur komið um vandræðagang Sjálfstæðisflokksins í útlendingamálum; að það sé allt þinginu að kenna“.

Sigmundur Davíð sagði svo:

„Ég held að flokkurinn ætti að líta sér nær og velta því fyrir sér hvernig á því standi að hann hafði ekki náð neinu fram þrátt fyrir að hafa verið boðin aðstoð ítrekað. Sjálfstæðisflokkurinn vissi það vel að jafnvel þótt Vinstri grænir legðust gegn litla útlendingamálinu hans þá yrði hægt að ná meiri hluta á þinginu og þeir gerðu að eigin frumkvæði breytingar á málinu, ítrekað, þynntu það út þar til það varð nánast að engu og svo kom félagsmálaráðherra og drap það litla sem þó hafði náðst í gegn hjá þeim.“

Formaður Miðflokksins gat þess svo að Ísland væri eina landið sem hefði ráðist í fjölskyldusameiningar eftir hryðjuverkin 7. október og velti fyrir sér hvaða öryggisráðstafanir íslensk stjórnvöld hefðu gert af þessu tilefni. „Ég hef nefnt dæmið af Þjóðverjum sem hugðust taka á móti allt að 200 starfsmönnum þýskra hjálparstofnana af Gaza. Þeir voru komnir til Kaíró en eftir viðtöl var einungis helmingnum hleypt til Þýskalands, hinir þóttu of hættulegir. Til hvaða öryggisráðstafana grípa íslensk stjórnvöld nú samhliða ákvörðunum um fjölskyldusameiningar og flutning fólks hingað?“