Sjálfstæðismenn almennt ánægðir: Blöndal sendir Davíð sögulegt bréf

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri er ritstjóri Morgunblaðsins.

„Bréfa­skrift­ir geta verið hættu­leg­ar af því þær koma upp um mann, – lýsa því í hvaða sál­ar­ástandi maður er þá stund­ina. Og auðvitað hefn­ir það sín, ef illa ligg­ur á manni, — þá mikl­ar maður hlut­ina fyr­ir sér og freist­ast til að fara ekki rétt með. Faðir minn kenndi mér að senda ekki slík bréf frá mér fyrr en að morgni, sem var holl ráðlegg­ing og olli því að þau voru aldrei send.“

Þennan vísdóm setur Halldór Blöndal, fv. ráðherra og forseti Alþingis, fram í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni: Orð til Davíðs. Undir greininni segir að höfundur hafi verið ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, sem nú er vitaskuld ritstjóri Morgunblaðsins og sendi sínum gamla flokki kaldar kveðjur um helgina í Reykjavíkurbréfi eins og Viljinn skýrði frá.

Óhætt er að segja að bréf Halldórs sé sögulegt, því hann hefur í áratugi verið einn mesti stuðningsmaður Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og fáheyrt að millum þeirra kastist í kekki.

„Áður en lengra er haldið rifja ég upp, að af­mæl­is­hátíð Sjálf­stæðis­flokks­ins að Val­höll var mjög vel heppnuð. Þar var fjöldi fólks og renn­ing­ur, þannig að stöðugt bætt­ust gaml­ir vin­ir og kunn­ingj­ar í hóp­inn. Marg­ir söknuðu þess þó, að sjá ekki sína gömlu for­menn, þig og Þor­stein Páls­son. Hvor­ug­ur ykk­ar sýndi sig en hefði þó farið vel á því að þið hefðuð komið sam­an, – jafn­aldr­ar og slituð barns­skón­um á Sel­fossi og bjugguð meira að segja um hríð við sömu göt­una hvor á móti öðrum,“ segir Halldór sem nú er formaður Landssambands eldri sjálfstæðismanna.

Halldór Blöndal, fv. forseti Alþingis.

„Ég hef fundið það glöggt, að meðal sjálf­stæðismanna er mik­il ánægja yfir stöðu þjóðmála og for­ystu flokks­ins. Þrátt fyr­ir gjaldþrot Wow-air og hrun loðnu­stofns­ins er svig­rúm til að bæta lífs­kjör og lækka skatta. Menn taka eft­ir því að það er traust milli formanna stjórn­ar­flokk­anna, sér­stak­lega Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur og Bjarna Bene­dikts­son­ar, og skilja af reynsl­unni að það er for­send­an fyr­ir því, að áfram megi vel tak­ast um stjórn þjóðmála. Sam­an fer sterk staða þjóðarbús­ins, meiri kaup­mátt­ur og jafn­vægi í efn­hags­mál­um,“ bætir hann við.

Ógætilegt

Halldór gagnrýnir í grein sinni að Davíð hafi í Reykja­vík­ur­bréfi ger­t orð Jóns Hjalta­son­ar að sínum. „Það var ógæti­legt og það hefðir þú ekki gert, ef bet­ur hefði legið á þér. Í grein Jóns er mikið af rang­færsl­um og raun­ar bein ósann­indi,“ segir hann.

„Margt fell­ur mér illa í þessu þínu síðasta Reykja­vík­ur­bréfi en verst þó, að þú skul­ir halda því fram að í þriðja orkupakk­an­um fel­ist framsal á yf­ir­ráðum yfir ís­lensk­um orku­markaði til stofn­ana Evr­ópu­sam­bands­ins. Það er ekki fót­ur fyr­ir þess­ari full­yrðingu. Og það er raun­ar at­hygl­is­vert, að þú skul­ir setja hana fram. Þjóðin á það þér að þakka, að samn­ing­ar tók­ust um hið Evr­ópska efna­hags­svæði og þú sann­færðir mig og aðra um, að sá samn­ing­ur rúmaðist inn­an ákvæða stjórn­ar­skrár­inn­ar. Sömu­leiðis fyrsti og ann­ar orkupakk­inn. Þar vannstu gott verk og þarft.

Mér ligg­ur meira á hjarta en það verður að bíða næstu grein­ar sem birt­ist inn­an fárra daga ef guð lof­ar,“ bætir Halldór Blöndal við.