„Bréfaskriftir geta verið hættulegar af því þær koma upp um mann, – lýsa því í hvaða sálarástandi maður er þá stundina. Og auðvitað hefnir það sín, ef illa liggur á manni, — þá miklar maður hlutina fyrir sér og freistast til að fara ekki rétt með. Faðir minn kenndi mér að senda ekki slík bréf frá mér fyrr en að morgni, sem var holl ráðlegging og olli því að þau voru aldrei send.“
Þennan vísdóm setur Halldór Blöndal, fv. ráðherra og forseti Alþingis, fram í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni: Orð til Davíðs. Undir greininni segir að höfundur hafi verið ráðherra í ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar, sem nú er vitaskuld ritstjóri Morgunblaðsins og sendi sínum gamla flokki kaldar kveðjur um helgina í Reykjavíkurbréfi eins og Viljinn skýrði frá.
Óhætt er að segja að bréf Halldórs sé sögulegt, því hann hefur í áratugi verið einn mesti stuðningsmaður Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og fáheyrt að millum þeirra kastist í kekki.
„Áður en lengra er haldið rifja ég upp, að afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins að Valhöll var mjög vel heppnuð. Þar var fjöldi fólks og renningur, þannig að stöðugt bættust gamlir vinir og kunningjar í hópinn. Margir söknuðu þess þó, að sjá ekki sína gömlu formenn, þig og Þorstein Pálsson. Hvorugur ykkar sýndi sig en hefði þó farið vel á því að þið hefðuð komið saman, – jafnaldrar og slituð barnsskónum á Selfossi og bjugguð meira að segja um hríð við sömu götuna hvor á móti öðrum,“ segir Halldór sem nú er formaður Landssambands eldri sjálfstæðismanna.
„Ég hef fundið það glöggt, að meðal sjálfstæðismanna er mikil ánægja yfir stöðu þjóðmála og forystu flokksins. Þrátt fyrir gjaldþrot Wow-air og hrun loðnustofnsins er svigrúm til að bæta lífskjör og lækka skatta. Menn taka eftir því að það er traust milli formanna stjórnarflokkanna, sérstaklega Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar, og skilja af reynslunni að það er forsendan fyrir því, að áfram megi vel takast um stjórn þjóðmála. Saman fer sterk staða þjóðarbúsins, meiri kaupmáttur og jafnvægi í efnhagsmálum,“ bætir hann við.
Ógætilegt
Halldór gagnrýnir í grein sinni að Davíð hafi í Reykjavíkurbréfi gert orð Jóns Hjaltasonar að sínum. „Það var ógætilegt og það hefðir þú ekki gert, ef betur hefði legið á þér. Í grein Jóns er mikið af rangfærslum og raunar bein ósannindi,“ segir hann.
„Margt fellur mér illa í þessu þínu síðasta Reykjavíkurbréfi en verst þó, að þú skulir halda því fram að í þriðja orkupakkanum felist framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Það er ekki fótur fyrir þessari fullyrðingu. Og það er raunar athyglisvert, að þú skulir setja hana fram. Þjóðin á það þér að þakka, að samningar tókust um hið Evrópska efnahagssvæði og þú sannfærðir mig og aðra um, að sá samningur rúmaðist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis fyrsti og annar orkupakkinn. Þar vannstu gott verk og þarft.
Mér liggur meira á hjarta en það verður að bíða næstu greinar sem birtist innan fárra daga ef guð lofar,“ bætir Halldór Blöndal við.