Sjálfstæðismenn geri kröfu um heilbrigðisráðuneyti og Bjarni gæti sóst eftir embætti utanríkisráðherra

Verði úrslit alþingiskosninganna í samræmi við nýlegar kannanir mun Sjálfstæðisflokkurinn gera kröfu um forsætisráðherraembættið í nýrri ríkisstjórn, segir Andrés Magnússon stjórnmálaskýrandi Morgunblaðsins. Verði samstarfsflokkarnir ekki við þeirri kröfu, er líklegt að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vilji færa sig um set eftir langa setu í fjármálaráðuneytinu og verða utanríkisráðherra.

Andrés sagði líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn geri kröfu um heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn, enda sé megn óánægja innan flokksins með harðlínustefnu Svandísar Svavarsdóttur gegn einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og stríði við sjálfstætt starfandi lækna.

Andrés ræddi stjórnmálaviðhorfið og stöðuna í aðdraganda kosninga í Hlaðvarpi Þjóðmála fyrir helgi með Birni Inga Hrafnssyni, ritstjóra Viljans, og umsjónarmanninum Gísla Frey Valdórssyni. Hann segist vel geta hugsað sér að Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, færist þá aftur í heilbrigðisráðuneytið.

Í spjallinu var vikið að innkomu Gunnars Smára Egilssonar á vettvang stjórnmálanna, en hann er á leið í framboð fyrir Sósíalistaflokkinn, vandræði Samfylkingarinnar sem glímir við hratt minnkandi fylgi, ágæta stöðu Framsóknarflokksins, persónuvinsældir Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og möguleg útspil Sigmundar Davíðs til að koma Miðflokknum aftur á skrið.